Endurheimt íslensku birkiskóganna á ört vaxandi fylgi að fagna meðal þjóðarinnar. Við landnám er talið að minnst 25% landsins hafi verið vaxið birkiskógi. Í Landnámu segir að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Í dag er staðan sú að innan við 2% landsins er vaxið birkiskógum. Birkið er eina innlenda trjátegundin sem myndar samfellda skóga en ilmreynir finnst víða í birkiskógum og skartar þessa dagana rauðum berjum. Lífríki birkiskóganna er auðugt og fjölskrúðugt á íslenskan mælikvarða. Víðitegundir hafa frá fornu fari einnig myndað samfelldar flesjur.

Stjórnvöld hafa sett saman aðgerðaáætlun í loftlagsmálum sem vinna skal eftir til ársins 2030. Þar er kveðið á um umfangsmikið átak um endurheimt raskaðra vistkerfa og endurheimt birkiskóga. Víða um lönd er unnið hörðum höndum að verndun og endurheimt náttúruskóga og því er mikið ánægjuefni að Íslendingar ætli sér að leggja hönd á þann plóg. Enda skiptir varðveisla og endurheimt náttúruskóga gríðarmiklu varðandi viðhald og framleiðni vistkerfa, sjálfbærni og kolefnisbindingu. Samfélagslegt gildi birkiskóga er mikið, samtengt bæði sögu og menningu. Mælingar benda til að kolefnisbinding birkis sem ræktað er til landgræðslu nemi á bilinu 1-5 tonn af CO₂ á hektara á ári.

Á Skeiðarársandi höfum við undur náttúrunnar fyrir augum. Þar hefur sjálfsáð birki upprunnið úr Bæjarstaðaskógi breiðst út með undraverðum hraða í tvo áratugi. Á sandinum er nú að vaxa upp eitt víðfeðmasta birkiskóglendi landsins sem gæti breiðst yfir um 35 ferkílómetra svæði.

Við getum lagt náttúrunni lið við endurheimt birkiskóga; safnað birkifræi og sáð út í náttúruna. Þessa dagana er heppilegur tími til þess arna. Ekki er talið æskilegt að flytja birkifræ- né plöntur milli landshluta vegna þess að birkið hefur lagað sig að staðbundnum vaxtaraðstæðum í aldanna rás. Skordýraplágur eru einnig að hluta staðbundnar. Nokkur verkefni af þessu tagi hafa staðið yfir árum saman og má í því sambandi nefna endurheimt hinna fornu Brimnesskóga í Skagafirði með Skagfirsku birki og Hekluskógaverkefnið.

Landgræðslan og Skógræktin standa um þessar mundir fyrir landsöfnun á birkifræi í samstarfi við Terra, Prentmet Oddi, Bónus og Lionshreyfinguna. Hægt verður að fá söfnunarbox á starfsstöðvum Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, Terru og í verslunum Bónuss.

Velja skal heilbrigð falleg birkitré til frætöku, hávaxin, beinstofna og ljós á börk. Ákjósanlegur tími til fræsöfnunar er í þurru veðri frá miðjum ágúst fram að lauffalli á haustin, eða svo lengi sem fræreklarnir tolla saman. Stórir og vel þroskaðir reklar eru bestir. Þeir mega vera fölgrænir að utan en fræið á milli fræhlífanna inni í reklinum verður að sýna brúnan lit. Gott er að örlítið sé farið að losna um fræið í reklinum.