Hún var afgerandi skoðanakönnunin sem MMR gerði á dögunum „Hversu andvíg(ur) eða fylgjandi ertu innflutningi til Íslands á hráu ófrosnu kjöti?“ Niðurstaðan kom ekki á óvart. Frekar og mjög andvíg innflutningi voru 56% aðspurðra en mjög og frekar fylgjandi 27% þeirra sem afstöðu tóku. Konur reyndust vera andvígari innflutningi en karlar og ungt fólk á aldrinum 18-29 ára sá hópur sem kemur kannski mest á óvart og þó ekki en 54% þeirra voru mjög andvíg eða fremur andvíg. En aðeins 9% mjög fylgjandi. Þessi könnun er sú fyrsta sem gerð er eftir að stjórnvöld gáfust upp fyrir ESB og opnuðu fyrir innflutningi á hráu kjöti í veröld vondra frétta um sjúkdóma í dýrum og pensilínnotkun bæði í dýr og fóður dýranna. Og ekki síður þar sem faraldrar sjúkdóma halda áfram að herja á landbúnað eins og til dæmis hin afríska svínapest núna.

Allir landsmenn eru meðvitaðir um að íslenskur landbúnaður er einstaklega heilbrigður og hér eru uppi strangari kröfur en í nokkru öðru landi um notkun lyfja og um að farga hjörðum sem smitast hafa af salmonellu- eða kampýlóbakter-smiti. Nú er mikilvægt að eftirlitsaðilar standi vörð um að skilyrðum sé fylgt og að innflytjendur vandi sín vinnubrögð. Það verður aldrei tekið til baka ef hingað berst mengað kjöt eða pestir. Þetta er ekki bara spurning um að rétt skjöl fylgi kjötinu heldur hitt að það sé rannsakað út frá okkar kröfum. Prufur teknar og settar í rannsókn hér. Hitt er svo jafnmikilvægt og fyrr að stjórnvöld styðji við landbúnað í öllum greinum landbúnaðarins. Best væri að setja sér 5-10 ára áætlun um að íslenskir bændur framleiði allt kjöt, allar mjólkurvörur og allt grænmeti sem Íslendingar og gestir þeirra ferðamennirnir neyta á Íslandi.

Til þess þarf að skapa velvilja hjá stjórnmálamönnunum. Hann er hjá þjóðinni samkvæmt þessari skoðanakönnun. Sá stjórnmálaflokkur sem þorir að setja þessa stefnu á oddinn er á framtíðarvegi. Áfram íslenskir bændur, þið skarið framúr með heilnæmar landbúnaðarvörur.