Enn einu sinni er alþýða manna á Íslandi áminnt um það að hún getur ekki greitt fyrir lántökur sínar með viðráðanlegum vöxtum. Þar þarf meira til.

Íslandsgjaldið heitir vaxtakúgunarverðtrygging. Krónan er ekki merkilegri gjaldmiðill en svo að hún er ekki lánuð nema að lánveitandinn sé tryggður gagnvart gjaldfalli hennar og sveiflum.

Almenningur ber kostnaðinn. Og ekki bara alla ævi, heldur út yfir gröf og dauða.

Rándýr krónan leiðir sí og æ til ójöfnuðar. Það er Íslandssagan. Hún er uppfull af einbeittu óréttlæti ríkjandi ráðamanna sem nota algerlega ónothæfan gjaldmiðil til að arðræna landsmenn – og pína þá til að sitja skör lægra en fólk í næstu nágrannalöndum.

Háir vextir og verðtrygging ofan á skuldastofninn leiða til óréttlátustu fjármagnsflutninga sem sögur fara af í sæmilega gerðu þjóðríki. Fjármunirnir eru kreistir út úr fjármagnsþurfi almenningi og færðir á silfurfati yfir til fjármagnseigenda. Og þetta gerist þeim mun hraðar eftir því sem vextirnir eru hækkaðir meira – og verðtryggingin leggst ofan á allt heila klabbið.

Ellefu sinnum hafa vextir verið hækkaðir á Íslandi á innan við tveimur árum. Tólfta hækkunin, líklega vegleg, verður að veruleika í næstu viku.

Og enn er vitað hverjir tapa – og hverjir græða, einmitt í þessum endurtekna veruleika þegar flóttinn frá háum vöxtum yfir í verðtryggingu er enn einu sinni brostinn á.

Þetta er íslenska krónuhagkerfið sem er staðráðið í að tapa verðgildi sínu jafn hratt og mikið á nýrri öld og það gerði á þeirri síðustu.

Þegar íslenska krónan var tekin upp fyrir réttri öld var hún jafngild þeirri dönsku. Hundrað árum seinna er ein dönsk króna 2.100 krónur. Með sama útreikningi er einn dalur nú 14.500 krónur og ein evra 16 þúsund krónur. Íslenska krónan hefur fallið um 99,95 prósent.

Krónuruglið, sem allt eins mætti kalla krónuofbeldið, sést í hvað átakanlegustu mynd sinni þegar hún er mátuð við vöruverð. Miðað við upphaflegt verðgildi krónunnar kostaði nú lítri af mjólk 20 þúsund krónur, einn brauðhleifur 50 þúsund krónur, meðalleiga á íbúð væri 25 milljónir á mánuði og ódýrustu bílarnir væru á 250 milljónir króna. Þokkalegt einbýlishús færi á 20 milljarða króna.

Þegar stjórnmálamenn, sem verja þessa óáran, tala fyrir því að sveiflur gjaldmiðilsins séu litla hagkerfinu nauðsynlegar, er mikilvægt að tilhlýðendur túlki orð þeirra á einn og sama veginn.

Þessir stjórnmálamenn tala fyrir því að færa til pening í samfélaginu. Frá þeim fjármagnsþurfi til fjármagnseigenda. Og þeir meina ekkert annað.