Það er sama hvar borið er niður í al­manna­þjónustu á Ís­landi, hún er og hefur alla tíð verið van­fjár­mögnuð. Stjórn­mála­mönnum hefur alltaf þótt
merki­legra að standa fyrir verk­legum fram­kvæmdum heldur en tryggja þjónustu við fólkið í landinu. Auð­velt er að benda á skóla­kerfið og heil­brigðis­kerfið, kerfi sem þrátt fyrir allt hafa náð að skila þokka­legum árangri fyrst og fremst fyrir þrot­laust starf og fórn­fýsi þeirra sem þar starfa þrátt fyrir ó­skipu­lag og van­fjár­mögnun af hálfu hins opin­bera.

Þessi við­varandi af­neitun á raun­kostnaði við rekstur al­manna­þjónustu er fyrst og fremst til­komin vegna þess hversu auð­velt er að fela hann og það er freisting sem stjórn­mála­mönnum tekst ekki að standast. Kostnaðurinn kemur ekki fram í eitt skipti heldur á löngum tíma, „den tid den sorg“.
Þetta er regla frekar en undan­tekning. Því má spyrja sig hvort margt í þjóð­fé­lagi okkar séu hreinar skýja­borgir og á ein­hverju stigi verði sagt við okkur að allt sé bara í plati.

For­sætis­ráð­herra og for­maður stjórn­mála­flokks sem skil­greinir sig sem vinstri flokk segir í við­tali
um stöðu ríkis­sjóðs að ekki sé þörf til frekari tekju­öflunar. Hvað finnst fram­línu­fólki á sjúkra­húsum og öðrum sem sinna al­manna­þjónustu um slíka yfir­lýsingu?

Um hærri veiði­gjöld út­gerðarinnar segir for­sætis­ráð­herrann að út­gerðin greiði nóg til sam­fé­lagsins. Þakka beri sér­stak­lega að hún láti brauð­mola hrjóta af borðum til að rísa undir þjónustu við al­menning og að hún sinni við­haldi á skipum sínum. Ef slík rök­semda­færsla heldur vatni þá ætti for­sætis­ráð­herrann að hætta að inn­heimta af­nota­gjöld af fisk­veiðum með öllu í þeirri bernsku trú að peningarnir sem eftir verða hjá út­gerðunum verði nýttir í öl­musu þó við blasi að mestur gróðinn fer í að kaupa Eim­skip, halda úti Morgun­blaðinu o.fl. en ekki til þeirra ölmusu­verk­efna sem for­sætis­ráð­herrann vill trúa.

Er það kannski bara gott að út­gerðin greiði ekki meira í ríkis­sjóð en hún gerir nú því þá hafi hún úr nægu að spila til gælu­verk­efna sinna?