Enn er það svo að íslenskt samfélag gerir ekki ráð fyrir öllum þegnum sínum. Og raunar er hólfaskiptingin enn þá harla greinileg þótt komið sé fram á nýja öld. Fyrir vikið ganga sumir að opnum dyrum samfélagsins á meðan aðrir ganga að þeim lokuðum.

Og er hér nokkur munur á. Fyrri hópurinn, sá fjölmennasti, gengur að réttindum sínum vísum, en hinn, sá fámennari, situr eftir heima.

Enn ein birtingarmynd þessa sást á forsíðu Fréttablaðsins í gærdag, en þar var fjallað um ungmenni með þroskahömlun sem hefur ekki enn verið tryggður réttur til náms. Eða með öðrum orðum, samfélagið heldur áfram að hafna þessum hópi fólks, eins og verkefnastjóri á vegum Landssamtakanna Þroskahjálpar orðaði það í umfjölluninni.

Ungmenni með þroskahömlun hér á landi sitja skör neðan en aðrir jafnaldrar þeirra við upphaf framhaldsskólaáranna. Þrátt fyrir að aðgengi þeirra að starfsbrautarnámi hafi verið tryggt með lögum fyrir hálfum öðrum áratug er enn ekki sjálfgefið að þau fái inni í fjölbrautaskólum og menntaskólum vegna þess að fjármunir hafa ekki fylgt lagabreytingunni.

Skólarnir geta því tekið á móti flestum ungmennum með þroskahömlun, en ekki öllum. Kerfið, sem kann að lesa fjölda þessa unga fólks í hverjum árgangi, framan af bernsku­árunum, er búið að gleyma tölunni, þegar það er komið á framhaldsskólaaldur.

Þeirra bíður þá ekkert, sagði verkefnastjórinn í umræddri frétt – og það vita allir foreldrar fatlaðra barna að er óbærilegt hlutskipti fyrir alla fjölskylduna.

Það á að vera takmark hvers samfélags að laða fram styrkleika fólks og leyfa því að njóta hæfileika sinna til fulls. Og það á aldrei að vera hlutverk samfélags að hafna hæfileikum einstaklinga sem þrá það eitt að lifa drauma sína.

Þau mannréttinda- og lagabrot sem ungmenni með þroskahömlun verða enn að þola á Íslandi eru þjóðinni til skammar. Á vetri komanda munu einhver þeirra sitja heima af því að það er ekki pláss fyrir þau í skólum landsins. Og jafnvel þó mörg þeirra fái inni á starfsbrautum þessara skóla bíður flestra þeirra ekkert frekara nám á háskólastigi þar sem fjöldatakmarkanirnar eru til enn meiri vansa en á framhaldsskólastigi.

Draumur þessa fólks um að komast í alls kyns verknám, tækninám eða listnám verður iðulega að martröð. Og það er af því að enn er Ísland sumra, ekki allra.