Endurskoðuð norðurslóðastefna Íslands er á dagskrá. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrsta norðurslóðastefnan var samþykkt einróma á Alþingi árið 2011. Þar ber tvö atriði helst á góma. Í fyrsta lagi ríkir meiri óvissa er kemur að öryggisumhverfi Íslands, ekki aðeins hvað varðar aukin hernaðarumsvif Rússlands heldur einnig nýtilkomna samkeppni milli Bandaríkjanna og Kína á norðurslóðum. Gæfuspor okkar Íslendinga skömmu eftir lýðveldisstofnun var að ná í „sjálfstæðistryggingu“ með stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu. Farsæld „Íslands okkar“ er tryggð með aðildinni. En þetta þýðir þó einnig að erlendar fjárfestingar þurfa að vera í takt við öryggishagsmuni landsins – sum verkefni geta ekki orðið að veruleika. Sé það ekki gert er hætt við að trúverðugleiki Íslands sem áreiðanlegs bandamanns bíði tjón.

Í öðru lagi, sem er ekki síður mikilvægt, er sú staðreynd að fjárfestingargeirinn hefur á síðustu árum aukið áherslu á sjálfbærni fjárfestinga. Parísarsamkomulagið jók áhuga fjárfesta á sjálfbærni fjárfestinga sem nú hafa fengið byr undir báða vængi í COVIDfaraldrinum. Þetta hefur leitt til þess að fleiri og fleiri bankar hafa tekið þá ákvörðun að hætta að fjármagna leit að nýrri olíu eða gasi á norðurslóðum. Stjórn Trumps, sem hafði stefnt að því að hefja vinnslu í Alaska í byrjun árs, varð vör við þessa breytingu. Fyrr en síðar mun Grænland vonandi átta sig á þessu. Það sem bráðnar núna hraðar en ísinn er grunnurinn að efnahagslegu sjálfstæði sem var selt Grænlendingum í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstjórn árið 2008. Fjárfestar hafa getuna til að endurskilgreina bláa hagkerfið á sjálfbæran hátt, bæði á norðurslóðum og alþjóðlega. Evrópa er leiðandi hvað sjálfbærar fjárfestingar varðar. Meirihluti Norðurskautsríkjanna er aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir hagsmunaaðilar ættu að vera virkari innan stofnanakerfisins í Brussel, hjarta EES, og nýta styrkleika Íslands hvað sjálfbærni varðar til að hafa áhrif á umræðuna. Sérstaklega núna þegar ESB líkt og Ísland er að uppfæra stefnu sína í málefnum norðurslóða.