Við Íslendingar eigum til að telja eyjuna okkar nafla heimsins. Ísland er hins vegar ekki nafli heldur tánögl.

„Veður í júlí sjaldan eins skítt“, var fyrirsögn fjölmiðils í vikunni. Í síðasta mánuði var fjöldi sólskinsstunda undir meðallagi, úrkoma yfir meðallagi og hæsti hiti í Reykjavík aðeins 15,9 gráður en hann hefur ekki verið lægri í júlí síðan 1989.

Undir lok átjándu aldar spurðu Íslendingar sig eftirfarandi spurningar af fyllstu alvöru: Er Ísland byggilegt? Öldin hafði leikið þjóðina grátt. Á árunum 1707 til 1709 lést fjórðungur þjóðarinnar úr bólusótt. Á árunum 1751 til 1758 geisaði hungur­s­neyð vegna kulda, hafíss og lítils fiskafla. Árið 1783 hófst eitt mesta eldgos Íslandssögunnar, Skaftáreldar. Hraunkvika lagði tugi bæja í eyði og eitruð gjóska olli mengun og búfjárdauða um land allt en talið er að fimmtungur þjóðarinnar hafi látið lífið í móðuharðindunum, sem drógu nafn sitt af móðunni sem lá yfir landinu.

Svo slæmt þótti ástandið að til tals kom að flytja alla þjóðina til Danmerkur. Embættismönnum var falið að skoða hugmyndina, um hana voru skrifaðar álitsgerðir og kostnaðurinn var metinn. Áfangastaðirnir sem komu til greina voru Jótlandsheiðar, Finnmörk og Kaupmannahöfn.

„Sagan endurtekur sig kannski ekki en hún rímar,“ er haft eftir rithöfundinum Mark Twain. Sótt, kuldakast og eldgos. Tene virðist Köben 21. aldarinnar þar sem stór hluti þjóðarinnar leitar nú skjóls í sjálfskipaðri útlegð.

Niður til helvítis

Árið 1961 sendi ungur drengur rithöfundinum C. S. Lewis, höfundi Narníu-bókanna, bréf og spurði hann hvað gleði væri. Svarið var óvænt. „Verur geta aldrei orðið fullkomin sköpunarverk, aðeins fullkomnar verur – svo sem góður engill eða gott eplatré,“ skrifaði Lewis. „Hæsta stig gleðinnar er þegar vera gerir sér grein fyrir því að það sem gerir hana að ófullkomnu sköpunarverki er það sem gerir hana að fullkominni veru.“ Hann segir synd að til séu vondar manneskjur og vondir hundar. Hluti af ágæti góðrar manneskju felist hins vegar í því að hún sé ekki engill og góðs hunds að hann sé ekki manneskja. „Snotur tánögl er ekki mislukkað hár – og væri hún með meðvitund gleddist hún yfir því að vera góð nögl.“

Til að viðhalda byggð á Íslandi þurfa íbúar eyjarinnar að horfast í augu við að hún er ekki Majorca eða Tene heldur tánögl. Sú staðreynd kann þó að vera annað og meira en eitthvað sem við verðum einfaldlega að gera okkur að góðu.

Þótt Ísland hafi í aldanna rás verið afskekkt römbuðu hingað reglulega ferðalangar frá fjarlægum löndum. Í ferðabókum erlendra manna frá 17., 18. og 19. öld voru dregnar upp lýsingar af landi og þjóð sem minna á skuggalegustu ævintýri. Íslendingum var lýst sem dónalegum villimönnum sem bjuggu í moldarhreysum ofan í jörðinni. Fullyrt var að frítt konuandlit væri hér sjaldséð. Íbúar voru sagðir skelfilegir dansarar; karl og kona stóðu einfaldlega andspænis hvort öðru og hoppuðu upp og niður án þess að hreyfast úr stað. Síðast en ekki síst átti hér að vera að finna logandi op ofan í jörðina sem náði alla leið niður til helvítis.

Þegar gos hófst í Meradölum í vikunni hækkaði gengi hlutabréfa í Icelandair um 3,21 prósent. Að sögn talsmanns flugfélagsins snarfjölgaði heimsóknum á vef þess við fréttir af gosinu.

Til Íslands kemur enginn til að sjá sól, hvítar strandir, hallir eða suðræna sveiflu. Það er í ófullkomleikanum sem fullkomleiki þessa hrjóstruga lands er falinn; auðninni, myrkrinu, kulda, eldi og ís. Við gosstöðvarnar á Reykjanesi sést annað og meira en rauðglóandi kvika. Þar blasir við hæsta stig gleðinnar og sú staðreynd að Ísland er ekki mislukkað hár.