Ástæðan fyrir því að Ísland er ekki lýðveldi er sú að í rauninni er það tiltölulega fámenn valdaklíka sem öllu ræður: Landsfundir Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan fyrir því að Landsfundurinn ræður svona miklu er einfaldlega sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn í stjórn lýtur alltaf vilja hans.

Stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins eru því í raun ekkert annað en strengjabrúður Landsfundarins.

Þetta ástand væri þó ekki neitt sérstaklega bagalegt ef þessir Landsfundir endurspegluðu raunverulegan vilja Sjálfstæðismanna á landinu – en svo er ekki.

Kjörnir fulltrúar á Landsfundunum koma afgerandi flestir af landsbyggðinni og þess vegna standa málin svo að lengstum hefur ekki verið neitt stjórnmálaafl á landinu sem sinnt hefur hagsmunum þeirra Sjálfstæðismanna sem ekki eru af landsbyggðinni – og þess vegna var Viðreisn komið á laggirnar.

Og hvað er það svo sem Landsfundurinn vill í pólitískum efnum? Jú – Í fyrsta lagi að styrkja stöðu sægreifanna sem mest má verða og svo í öðru lagi að efla hag sveitanna – sem táknar að samkundan 1) setur sig upp á móti ESB-aðild og 2) styður að settir séu ofurtollar á landbúnaðarvörur.

Það vill hins vegar svo til að þetta tvennt er einmitt líka á stefnuskrá bæði Framsóknar og Vinstri grænna, sem enn og aftur táknar að þessir þrír flokkar tengjast órofa böndum: Jafnvel þótt ákveðinn áherslumunur sé á stefnuskrá þeirra, þá eru þetta samt Framsóknarflokkarnir þrír á landinu sem alltaf munu skríða saman í eina sæng þegar tækifæri gefst.