Samhliða mikilli fjölgun ferðamanna hér á landi síðastliðinn áratug jókst til muna álag á ýmsa innviði landsins.

Næstum eins og hendi væri veifað streymdu þúsundir bílaleigubíla út á vegi landið í kring og ökumenn þeirra ekki allir viðbúnir þeim aðstæðum sem þar eru með tvíbreiðum vegum, einbreiðum brúm og malarvegum.

Áður höfðu strandsiglingar lagst af og vöruflutningar færst á þessa sömu vegi með stórauknu álagi og stökkbreyttri slysahættu.

Gengnar kynslóðir byggðu af eftirtektarverðu harðfylgi upp innviði sem við sem á eftir komum höfum notið. En undanfarinn áratug hefur uppbyggingin stöðvast og viðhaldið setið á hakanum.

Í niðursveiflunni í kjölfar falls bankanna drógu stjórnvöld stórkostlega úr fjárframlögum til viðhalds og uppbyggingar innviða og hefur það ástand varað síðan. Undantekning þess er gríðarleg uppbygging á Keflavíkurflugvelli, svo anna mætti þeim straumi ferðamanna sem hingað lögðu leið sína.

Í vikunni kynntu Samtök iðnaðarins skýrslu sína um innviði. Þar kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé 420 milljarðar króna, eða sem nemur 14,5 prósentum af landsframleiðslu. Með uppsafnaðri viðhaldsþörf er átt við hvað þurfi til svo koma megi innviðum í það horf að eðlilegt viðhald dugi til að halda ástandi þeirra óbreyttu.

Til glöggvunar nota skýrsluhöfundar einkunnir, frá 1 þar sem innviðir uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til notkunar þeirra, til 5 þar sem innviðir eru nýir og uppfylla kröfur samtímans.

Niðurstaða skýrslunnar er að nær 60 prósent af þessum 420 milljörðum megi rekja til innviða sem fá einkunnina 2. Þá segir að mest sé þörfin í vegakerfinu, eða 160 til 180 milljarðar króna.

En það er fleira en vegir sem liðið hafa fjárskort undanfarinn rúman áratug. Í skýrslunni er vikið að lélegu viðhaldi fasteigna í eigu hins opinbera. Reglulega koma upp mál þar sem mygla hrekur starfsemi úr opinberum byggingum. Ráðuneyti og stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafa neyðst til að færa til starfsemi sína með tilheyrandi kostnaði, vegna heilsuspillandi aðstæðna af völdum myglu.

Allt að einu blasir við að sparnaður í viðhaldi hefnir sín grimmilega og 420 milljarðar króna er meira fé en lagt verður á sjóði hins opinbera. Allra síst eins og mál standa nú í kjölfar heimsfaraldursins.

Það er óforsvaranlegt að stíla þann reikning á komandi kynslóðir, til viðbótar þeim reikningum sem í þessum svifum er verið að skrifa vegna áhrifa faraldursins. Finna þarf aðrar leiðir til að fjármagna þessa viðhaldsþörf um leið og tryggja verður að viðhaldinu sé sinnt en því ekki slegið ítrekað á frest með þeim afleiðingum að stórfellt átak þarf til að koma þessu í viðunandi horf.

Það er á ábyrgð stjórnvalda að viðhalda þeim verðmætum sem gengnar kynslóðir hafa myndað. Það er ekki sanngjarnt að afleiðingar vanrækslu okkar séu lagðar á börn okkar og barnabörn.