Í fréttum nefndi heilbrigðisráðherra að ætlunin væri að skoða skipun stjórnar yfir Landspítalanum. Ég tel vert að skoða samhliða hvort henni yrði falið að skipa endurskoðunar­nefnd og innri endurskoðanda.

Endurskoðunarnefnd er ætlað að bæta stjórnarhætti í þeim málefnum sem stjórn ber að annast. Meðal verkefna er að hafa eftirlit með gerð fjárhags­áætlunar og reikningsskila, endurskoðun ársreiknings, virkni innra eftirlits og innri endurskoðun. Í lögum um opinber fjármál frá árinu 2015 voru gerðar verulegar breytingar á reikningsskilum ríkisstofnana og þeim gert skylt að láta framkvæma innri endurskoðun hjá sér á grundvelli reglugerðar sem fjármálaráðherra setur. Þessi reglugerð hefur ekki enn verið gefin út. Útbreiddur misskilningur er að Ríkisendurskoðun sinni þessu eftirliti. Örfáar ríkisstofnanir láta framkvæma innri endurskoðun hjá sér en eitt meginúrlausnarefnið er að finna skipulag sem tryggir óhæði innri endurskoðandans. Skilyrðið er að hann heyri undir stjórn og hafi beinar boðleiðir til hennar. Þetta er vandkvæðum bundið í ríkisrekstri þar sem stjórnir eru sjaldan skipaðar yfir ríkisstofnunum.

Tilgangur innri endurskoðunar er að vera virðisaukandi og bæta rekstur stofnana. Verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt og geta falist í því að gera kannanir á fylgni við lög og reglur, skilvirkni, hagkvæmni og árangri einstakra starfseininga, ferla eða verkefna. Úttektirnar eru liður í stöðugum umbótum og kerfisbundnu eftirliti með starfsemi stofnunar. Þegar erfið mál koma upp getur stjórn falið innri endurskoðanda að gera óháða úttekt og koma með tillögur til úrbóta.

Innri endurskoðun er órjúfanlegur þáttur í stjórnskipulagi fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, opinberra félaga og stærsta sveitarfélags hér á landi. Þetta á einnig við þegar litið er til Norðurlandanna en þar er búið að festa í sessi innri endurskoðun hjá hinu opinbera. Ég tel því mikilvægt fyrir ráðherra að skoða þetta fyrirkomulag og þann ávinning sem í því felst fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir.