Í meira en hálft ár hafa stjórn­völd í Belgíu mælst til þess að allir vinnu­staðir sem eiga þess kost láti starfs­menn sína vinna að heiman til að sporna gegn út­breiðslu CO­VID-19. Hér, eins og annars staðar, þurfti að hafa hröð hand­tök við að koma upp búnaði til heima­vinnu og tryggja við­unandi vinnu­að­stöðu sem fáum hug­kvæmdist að þyrfti að nota svo mánuðum skipti.

Þrátt fyrir að við hefðum gefið margt til að sleppa við CO­VID er hægt að líta til já­kvæðra breytinga sem á­standið hefur haft á starfs­um­hverfi. Vinnu­staðir fram­tíðarinnar verða án efa með öðru sniði en þeir voru fyrir 2020 og það er okkar að skil­greina hvað við viljum læra af reynslunni og gera með nýjum hætti fremur en að bíða og sjá hvað setur.

Allt er gott í hófi

Ekki sér fyrir endann á þeim á­hrifum sem veiran hefur á dag­legt líf í Belgíu sem er enn langt frá því sem áður taldist vera eðli­legt. Til skamms tíma var hægt að halda þetta út með því að setja aukinn kraft í net­sauma­klúbba og netættar­mót en þær miklu hömlur sem okkur eru settar hafa í för með sér að fé­lags­leg sam­vera og sam­skipti eru mjög af skornum skammti og hætta myndast á að fólk taki að ein­angrast í litlum heimi innan fjögurra veggja þar sem það ver tíma með fjöl­skyldunni, vinnur við tölvuna, fær af­þreyingu í gegnum tölvuna eða sjón­varps­skjá og verslar á netinu. Enginn full­orðinn má fara út fyrir hússins dyr nema með and­lits­grímu, svo nánast er úti­lokað að bera kennsl á kunningja á förnum vegi nema augna­ráðið eða hár­greiðslan séu með ein­hverjum hætti af­gerandi.

Mikil­vægi vinnu­staða

Nú er kjörið tæki­færi til að velta fyrir sér hversu mikil­vægir þættir í lífi okkar vinnan og vinnu­staðurinn eru. Í Brussel þykir nokkuð vel sloppið ef hægt er að komast í vinnuna á 30-60 mínútum. Margir áttuðu sig á því þegar heima­vinna tók yfir að þrátt fyrir að hafa áður fyrr talið eftir „tapaðan“ ferða­tíma kom í ljós að á­kveðinn söknuður væri að honum, enda er þetta stundum eini tími dagsins sem hægt er að nota til að hlusta á sögur, podköst, lesa í lestinni eða kúpla sig út and­lega. Mikil­vægur þáttur þess að fara í vinnuna felst líka í því að skipta um um­hverfi, keyra, hjóla, ganga eða nota al­mennings­sam­göngur til að komast á vinnu­staðinn, að hitta vinnu­fé­laga, ræða fréttir dagsins og skiptast á skoðunum, að hafa al­vöru að­stöðu til að sinna starfinu, ó­tengda einka­lífi eða heimili, sem auð­veldar að skilja á milli.

Þótt nú sé ekki með öllu bannað að fara á skrif­stofuna er til­ganginum með því ekki fylli­lega náð þegar sam­starfs­menn eru hikandi við að nýta sér al­mennings­sam­göngur til að komast á svæðið og þeir halda sig því frekar heima. Vinnu­staður er ekki bara hús, skrif­stofa eða tækni­búnaður, heldur er hann að veru­legu leyti sam­fé­lag. Tíminn sem við verjum með sam­starfs­fólki okkar er um­tals­verður og er mikil­vægur í störfum okkar og starfs­á­nægju. Þótt gott sé að fá stundum frið til að ein­beita sér, eru oftar en ekki bæði form­leg og ó­form­leg sam­skipti á vinnu­staðnum upp­spretta nýrra hug­mynda, að­ferða og tengsla. Þessu er erfitt að líkja eftir með raf­rænum hætti og er mikill missir að.

Mann­auðurinn lykil­þáttur

Hvert og eitt okkar hefur sýnt og sannað að við getum að­lagast breytingum hratt og vel auk þess að hafa frum­kvæði að nýjum leiðum til að leysa úr verk­efnum. Við eigum ekki í nokkrum vanda með að nota nýjar lausnir sem fjar­vinna byggist á, breytum ferlum, sýnum frum­kvæði og erum lausna­miðuð. Það traust sem hefur skapast milli stjórn­enda og starfs­manna, sem og eigin reynsla stjórn­enda af því að vinna að heiman, er gríðar­lega mikil­væg. Með sveigjan­leika og metnaði til að skila af sér góðu starfi hefur verið sýnt og sannað að tíma­bært og eðli­legt er að taka nýja nálgun á stefnu um sam­spil fjar­vinnu og við­veru á vinnu­stað.

Þrátt fyrir að breytingarnar hefðu ekki verið ger­legar án full­nægjandi tækni­lausna, er mann­auðurinn lykil­at­riði í þeim árangri sem hefur náðst á vinnu­stöðum. Sveigjan­leiki starfs­manna, þekking og að­lögunar­hæfni að nýjum að­stæðum er lykil­þáttur í árangri á tímum sem þessum. Þegar CO­VID-váin rénar ætti sú braut sem nú hefur verið rudd að vera sjálf­sagður hluti vinnu­um­hverfis sem fellur í hlut stjórn­enda vinnu­staða að skapa.

Nýr raun­veru­leiki eftir 2020

Eftir að hafa unnið mest­megnis að heiman mánuðum saman og upp­lifað tölu­vert miklar hömlur á mann­legum sam­skiptum, menningar­við­burðum og ferða­lögum, hvort sem er í einka­lífi eða starfi, er ég sann­færð um að fleiri en ég finna fyrir auknum merkjum fé­lags­sveltis. Notum tæki­færið sem nú gefst til að velta fyrir okkur hvert mikil­vægi tengsla­nets okkar er og hlökkum til að næra það í nýjum raun­veru­leika sem við mótum í sam­einingu með reynsluna að leiðar­ljósi.