Ríkisstjórnin tilkynnti í gær að 46 milljörðum króna yrði varið í að draga úr losun koltvísýrings á Íslandi. Um er að ræða viðamikinn aðgerðapakka, sem mun án vafa kalla á stofnun fjölmargra starfshópa. Fjöldi gagnlegra funda verður eflaust haldinn, til að tryggja framgang loftslags­áætlunarinnar.

Til að mynda stendur nú til að banna notkun á svartolíu, sem er löngu tímabær aðgerð og í raun algjör vanræksla af hálfu stjórnvalda að hafa beðið svo lengi með það. Þó að nú minnki sennilega hvati þeirra sem gera út skemmtiferðaskip til að koma hingað til lands. Því bannað er að brenna svartolíu innan efnahagslögsögu nánast allra Evrópuríkja, nema Íslands. Því hefur það borgað sig að taka stímið til Íslands, fylla dallinn af brennisteinsríkri og hræódýrri svartolíunni og taka rúnt í kringum landið.

Einnig verður unnið að því að hafa áhrif á fóðrun búfénaðar, til að draga úr iðragerjun hans. Dregið verður úr kjötneyslu opinberra starfsmanna, með breyttri innkaupastefnu mötuneyta. Ekki er tekið fram í loftslagsáætluninni hvaða áhrif aukin grænmetisneysla gæti haft á iðragerjun opinberra starfsmanna. Tíminn einn mun leiða það í ljós.

Nánast öll orka er framleidd með endurnýjanlegum hætti á Íslandi, en upprunaábyrgðir eru seldar úr landi, sem þýðir að í hinu alþjóðlega kolefnisbókhaldi er Ísland að taka á sig losun annarra.

Í nýju loftslagsstefnunni er á nokkrum stöðum talað um losun á beinni ábyrgð Íslands, og losun sem tilheyrir hinu svokallaða ETS-kerfi – hinu samevrópska kerfi um upprunaábyrgðir raforku. Klifað er á aðskilnaði milli losunar á beinni ábyrgð Íslands og þeirrar sem fellur undir ETS-kerfið á nokkum stöðum í loftslagsstefnunni, til að mynda í kaflanum um rafvæðingu við framleiðslu fiskimjöls. Loftslagsáætlunin tekur eingöngu til þess sem stendur utan ETS-kerfisins.

Þarna liggur hundurinn grafinn. Því að með sölu upprunaábyrgða úr landi gera Íslendingar öðrum kleift að menga. Nánast öll orka er framleidd með endurnýjanlegum hætti á Íslandi, en upprunaábyrgðir eru seldar úr landi, sem þýðir að í hinu alþjóðlega kolefnisbókhaldi er Ísland að taka á sig losun annarra. Annars værum við ekki að fá borgað fyrir sölu upprunavottorða. Ef hægt er að finna 46 milljarða til að verja til framkvæmdar loftslagsáætlunar, þá ætti að vera hægt að bæta orkufyrirtækjunum upp tekjutap, myndu þau hætta að selja upprunaábyrgðir.

Tekjur íslenskra orkufyrirtækja af sölu upprunaábyrgða nema á bilinu 1-1,5 milljörðum á ári. Skilvirkasta loftslagsaðgerðin væri einfaldlega að hætta sölu þessara ábyrgða, enda er það þyngra en tárum taki að verkfræðiljóð á borð við Kárahnjúkavirkjun hafi risið með miklum tilkostnaði og náttúrufórnum, svo að grútskítug brúnkol fái áfram að fuðra upp á meginlandi Evrópu.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðinum.