Bifreiðatryggingar hér á landi virðast geta verið fimm sinnum dýrari en í Svíþjóð og Bretlandi.

Bankaþjónusta hér á landi er gríðarlega dýr og vextir út úr kortinu samanborið við önnur lönd.

Hvergi í heiminum er eins dýrt að fjármagna húsnæðiskaup.

Fyrir vikið geta íslensk fyrirtæki ekki keppt við erlend á jafnréttisgrundvelli. Íslenska krónan skerðir kjör neytenda hér á landi

Skaðvaldurinn sem þessu veldur er íslenska krónan, minnsti gjaldmiðill í heimi sem hvergi er gjaldgengur.

Tryggingafélögin og bankarnir skáka í skjóli krónunnar. Á meðan íslenska krónan er okkar gjaldmiðill verður engin erlend samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Fyrir þetta borga neytendur og íslenskt atvinnulíf brúsann með hærra verðlagi og skertri samkeppnishæfni.

Besta leiðin út úr þessari skaðlegu flækju er að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru, gjaldmiðil sem færir Ísland inn á alþjóðlega samkeppnismarkaði. Þessi leið tekur hins vegar mörg ár.

Til er önnur leið. Danska krónan er fest við evru. Ekkert ætti að standa í vegi fyrir því að við Íslendingar tökum upp dönsku krónuna sem gjaldmiðil með samkomulagi við danska Seðlabankann. 1921 var íslenska krónan á pari við þá dönsku. Nú er hlutfallið 1/2000. Er þetta ekki fullreynt?

Með upptöku dönsku krónunnar tökum við í raun upp evru og opnum fákeppnismarkaði hér á landi, til dæmis trygginga- og bankaþjónustu, fyrir erlendri samkeppni, neytendum og atvinnulífi til hagsbóta.

Danir eru með eitt elsta og besta húsnæðislánakerfi í heimi. Langtíma fastir vextir á dönskum húsnæðislánum eru nú í kringum 0,7 prósent. Ekki fastir til þriggja ára, heldur út lánstímann. Þetta húsnæðislánakerfi stendur okkur til boða ef við tökum upp danska krónu.

Er eftir einhverju að bíða?