Úr­skurður héraðs­dóms um sótt­kvíar­hótelið var at­hyglis­verður. Á­kvörðunin um að loka þá sem koma til landsins frá til­teknum löndum inni í fimm daga var ekki bara rang­stæð gagn­vart mann­réttindum, stjórnar­skrá og laga­heimildum heldur virtist hún hvorki vel undir­búin né út­hugsuð.

Ekki virtist gert ráð fyrir að hótel­gestirnir fengju að komast út undir bert loft. Upp­lýsingar til hópsins voru af skornum skammti og dæmi um að fólk vissi ekki hvað til stæði fyrr en það var á leiðinni í ein­angrunina. Og það sér­kenni­legasta var að gestir hótelsins gátu hvað sem öllu leið farið ef þeir vildu. Þeir sem það gerðu voru vissu­lega til­kynntir til lög­reglu og gátu þá fengið sekt en sótt­varna­rökin fyrir því að ein­angra alla hina urðu afar ó­ljós fyrir vikið.
Saman­burðurinn er líka á­huga­verður. Þeir sem þurfa að fara í hefð­bundna sótt­kví eftir að hafa um­gengist smitaðan ein­stak­ling hér innan­lands gátu tekið þá sótt­kví heima hjá sér eða uppi í bú­stað, án ein­angrunar eða eftir­lits. Á sama tíma voru þeir, sem komu til landsins og höfðu þá þegar fram­vísað nei­kvæðu PCR-prófi og farið í skimun á landa­mærum, skikkaðir í fimm daga ein­angrunar­vist. Þessi mikli munur á úr­ræðum stenst illa skoðun.

Við erum öll orðin dauð­þreytt á þessu á­standi. Á tímum þegar það er að­steðjandi ógn og stöðugur ótti er freistandi að taka upp ný og „beittari“ úr­ræði án tafar og ekki tefja málin um of með um­ræðum eða vanga­veltum. Þá er ein­mitt hættan á að stjórn­völd fari of geyst og fram úr sér.