Ég sat fyrir framan smásjá að skoða örverur, talaði mikið um ecoli og títraði í VR3 (verkleg efnafræðistofa fyrir þá sem ekki þekkja til). En það er hluti af að vera í lífefna- og sameindalíffræði (líf og sam). Ég hélt að með leit minni á veraldarvefnum hefði ég fundið námið sem hentaði mér. Það var ekki svo gott. Ég hafði mikinn áhuga á mannslíkamanum, stærðfræði og efnafræði. Í náminu er fjallað um öreindir en mig þyrsti í að læra um „stærri hluti“ m.a. vöðva og bein líkamans. Þannig eftir 1. árið í náminu var mér ljóst að ég væri aldeilis ekki á réttri hillu. Ég tók ákvörðun um að taka mér pásu frá námi, til þess að vinna ásamt því að æfa og þjálfa körfubolta.

En af hverju er ég að segja frá reynslu minniaf því að byrja og hætta í háskólanámi? Ég geri það til þess að segja ykkur eftirfarandi.

Ég mætti síðar á Háskóladaga en ég hvet alla til að mæta þangað (29. febrúar í Reykjavík og 7. mars á Akureyri árið 2020), þótt fólk haldi að það viti nákvæmlega hvað það vilji læra (m.a. eftir að hafa vafrað um á veraldarvefnum). Kannski sjáið þið ekkert sem vekur athygli ykkar, en mögulega öðlist þið vitneskju um nám sem þið vissuð ekki að væri til. Þið verðið að minnsta kosti fróðari um námsúrval landsins og getið fengið að ræða við núverandi nema og kennara. Gott samtal getur gert gæfumuninn.

Á Háskóladögum frétti ég í fyrsta skipti af iðjuþjálfunarfræði/iðjuþjálfun. Sérstaða fagsins er að það er á mörkum heilbrigðis- og félagsvísinda. Ég þráði menntun sem myndi veita mér möguleika á að vinna með fólki þannig að ég myndi ekki einungis eiga samtal við smásjá alla daga (kannski aðeins að ýkja). Ég skoðaði námskeiðin í iðjuþjálfunarfræði og þau heilluðu mig og þar af leiðandi skráði ég mig í námið haustið 2017. Þá 22 ára gömul.

Já ég var 22 ára og hafði aldrei heyrt um iðjuþjálfunarfræði/iðjuþjálfun. Síðan fór fólk að spyrja mig hvað ég væri að (fara) læra og ég svara „iðjuþjálfunarfræði“. Nánast undantekningarlaust fékk ég (og fæ) þá spurninguna til baka „hvað er það?“

Sko, fyrst þegar ég byrjaði námsferilinn minn vissi ég ekki hvernig ég ætti að lýsa því hvað þessi menntun myndi leiða af sér eða hvernig ég ætti að lýsa faginu. Í dag, 24 ára, reyni ég að lýsa iðjuþjálfunarfræði á skiljanlegan máta.

Ég öðlast færni í að nota faglegar leiðir til að styðja við fólk gera það sem ætlast er til af því, það þarf að gera og vill ná að framkvæma í daglegu lífi. Til dæmis gæti það verið að stunda tómstundir og/eða að þvo föt. Iðjuþjálfar leggja áherslu á að vinna með fólki að því að leysa vanda í daglegu lífi sem upp getur komið vegna t.d. aðgengismála, veikinda eða einhverskonar skerðingar.

Vissuð þið að það eru ekki allir færir um að elda máltíð frá grunni, t.d.vegna líkamlegra og/eða geðrænna áskorana. Og sumir eru kannski færir um það en hafa síðan ekki orku til að gera neitt annað allan daginn og vilja því forgangsraða öðrum athöfnum. Hér er síðan unnið með skjólstæðingi að lausn á því hvernig hann vilji nærast (ath. skjólstæðingurinn þarf ekki persónulega að matreiða matinn til þess að elda eða eiga hlutdeild í eldamennskunni).

Nám í iðjuþjálfunarfræði veitir fólki möguleika á því að vinna með einstaklingum og hópum á öllum aldri og á margvíslegum sviðum.

Í lokin ætla ég að gefa smá innsýn inni hvernig það er að stunda nám í iðjuþjálfunarfræði. Námið er kennt við Háskólann á Akureyri og er sveigjanlegt nám. Ég er búsett á höfuðborgarsvæðinu en það þýðir ekki að ég geti smeygt mér í gegnum námið. Þetta er krefjandi nám, og hef ég heyrt að nemendur sem fari í framhaldsnám eftir iðjuþjálfunarfræði séu vel undirbúnir (ég vona allavega að það sé satt).

Allir kennarar sem koma að kennslu í iðjuþjálfunarfræði eiga risa hrós skilið fyrir m.a. metnað, dugnað og vinnusemi (þau eiga þetta hrós skilið óspart og er ég ekki að setja þau á of háan stall. Kennararnir mynda einnig náin tengsl við nemendur og muna hvað við heitum! Nútímatæknin er svo nýtt til hins ítrasta og aðstoðar nemendur og starfsfólk skólans við að eiga í heilmiklum samskiptum. Ég mæli með að fólk kynni sér námið við Háskólann á Akureyri, en þá sérstaklega iðjuþjálfunarfræði.