Það er fagnaðarefni að ákveðið hefur verið að beiðni Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins, að undirskriftasöfnun fari fram um breytingar á landnotkun við eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins, Elliðaárdal. Nú gefst borgarbúum tækifæri til að láta rödd sína heyrast í máli er varðar bæði hagsmuni náttúruverndar og útivistar.

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér deiliskipulagsbreytingar á umræddu svæði, það er svæðið norðan Stekkjarbakka í Reykjavík sem liggur að Elliðaárdal. Í því sambandi vakti umsögn Umhverfisstofnunar og svör borgaryfirvalda við alvarlegum athugasemdum sem þar komu fram, sérstaka athygli og áhyggjur. Stjórnin tók undir mörg þau gagnrýnu sjónarmið sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar og taldi að þau ein hefðu átt að gefa tilefni til að leggja áformin til hliðar.

Stjórn Landverndar telur að sú breyting sem borgaryfirvöld áforma spilli afar vinsælu og skjólsælu útivistarsvæði með fjölbreyttu lífríki og áhugaverðum menningarminjum. Græna svæðið í Elliðaárdal mun minnka auk þess sem ásýnd svæðisins verður manngerðari með byggingum og bílastæðum, ef nýju deiliskipulagi verður fylgt með framkvæmdum. Ekki er að sjá að almannahagsmunir kalli á þær breytingar sem gerðar hafa verið á deiliskipulaginu. Frekar kalla almannahagsmunir á bætta aðkomu að Elliðaárdal og meiri trjárækt norðan við Stekkjarbakka þannig að svæðið verði friðarreitur fyrir borgarbúa.

Landvernd hefur áður látið til sín taka í skipulagsmálum og skerðingu á opnum svæðum í þéttbýli. Nægir að nefna í því sambandi baráttu samtakanna gegn stórkarlalegum framkvæmdum við Urriðavatn í Garðabæ og vegagerð um Gálgahraun. Í framangreindum málum var íbúum ekki veitt færi á að koma að málinu með beinum hætti. Enda varð niðurstaða þeirra mun meiri eyðilegging á náttúruverðmætum en nauðsynlegt var.

Nú gefst einstakt tækifæri til að snúa þeirri þróun við að gengið verði á verðmætt útivistarsvæði í nafni framfara. Ég hvet íbúa í Reykjavík til að leggja baráttu Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins lið. Fram til 28. febrúar má taka undir kröfu um að fram fari íbúakosningar þar sem spurt verður hvort íbúar í Reykjavík séu fylgjandi eða andvígir breytingu á deiliskipulagi við Elliðaárdal. Ef þátttaka verður góð fá íbúar Reykjavíkur tækifæri til að taka af skarið í málinu.

Til að leggja þessari kröfu lið verða Reykjavíkurbúar að skrá sig á heimasíðunni: ellidaardalur.is