Fyrsti al­vöru kvíða­valdur barna á árinu er að velja sér búning fyrir ösku­dag. Drullu­stressaðir for­eldrar rembast við að koma ljós­mynd á sam­fé­lags­miðla áður en haldið er af stað í vinnuna. Morgun­dagurinn er einn versti dagur ársins á Face­book.

Í „gamla daga“ fólst undir­búningur ösku­dagsins í því að sauma saman ösku­poka úr gömlum skyrtum og festa í þá beyglaða títu­prjóna. Sá sem hengdi á flesta lög­reglu­þjóna átti grobbréttinn næstu daga. Síðan þá hefur margt breyst.

Heitasta sjón­varps­efnið var tekið upp á vídeó­spólur og tón­listin á segul­band. Fjandans út­varps­maðurinn skemmdi mixta­pe-in með því að gjamma ofan í intróin. Á þetta hlustaði maður í vasa­diskóinu eða risa­stóru hljóm­flutnings­tækjunum sem geymd voru í gler­skápum á hjólum. Donk­ey Kong tölvu­spilið og jójó með gos­drykkjar­lógóum voru skammt undan og veggir voru þaktir tón­listar­plakötum.

Í skólanum smíðuðu börn ösku­bakka handa for­eldrunum á milli þess að vera send út í búð með miða; sígarettur fyrir pabba og nammisígarettur fyrir börnin. Bland í poka var valið í miklu, en frú­st­rerandi, sam­starfi við sjoppu­starfs­manninn, sem varð æfur ef ekki var spólað til baka við skil videó­spólunnar.

Það þótti í lagi að spyrja eftir vinum með því að mæta ó­boðaður heim til þeirra og spurningin „viltu byrja með mér?“ þótti eðli­leg við­reynslu­að­ferð. Ef undir­tektirnar voru góðar þá fór parið saman út í næstu sjoppu, klætt apa­skinns­göllum.

Fréttirnar voru sóttar á blað­síðu 102 í texta­varpið og mikil­vægasti hluti inn­búsins, síma­skráin, var geymd á sér­stöku síma­borði undir ljós­gráum skífu­síma. Mesta hættan stafaði af þynningu óson­lagsins og gömlum körlum í um­ferðinni, sem allir klæddust höttum undir stýri, svona eins og til að vara mann við.