Ís­lenska sumarið er dá­sam­legast í heimi og gerir vetrar­dvölina svo sannar­lega þess virði. Þegar sumarið birtist ekki eru von­brigðin í sam­ræmi við væntingarnar. Það er ekki nándar eins gaman að leggjast í fal­lega laut og hlusta á regnið og það er að hlusta á lækjar­nið, fugla­söng og stöku flugu.

Í kulda og súldinni verður stór hluti Ís­lendinga heldur ó­þreyju­fullur eftir sólinni og al­menni­legu sumri. Margir hafa jafn­vel gefist upp á biðinni og pantað á síðustu stundu ferðir til sólar­landa, þar sem draumurinn um leti­líf á ströndinni í sól og hlýindum ræður för. Við sjáum fyrir okkur sól­bekki, öldu­gjálfur og svalandi drykki.

Líkur eru á að þau sem eru að fljúga út fái heldur meira en keypt var í pakka­ferðinni. Önnur hita­bylgja ársins gengur nú yfir Portúgal, Spán, Frakk­land og Bret­land. Og ágúst­hitinn er ekki byrjaður. Við­varanir eru um að hitinn núna fari jafn­vel vel yfir 40 gráður. Var­úðar­á­stand er um næstum allt Portúgal vegna hættu á skógar­eldum. Bretar búa sig undir að nú­verandi hita­met upp á 38,7 gráður falli í næstu viku. Gera þurfti sér­stakar ráð­stafanir í gær fyrir þjóð­há­tíðar­daginn í Frakk­landi og hætta við flug­elda­sýningar vegna hita og hættu á gróður­eldum.

Í stað þess að leita uppi sól munu sumar­þyrstir Ís­lendingar í þessum löndum vonandi fara var­lega. Gæta sín á sól­sting, leita uppi skugga og drekka nóg vatn. Ein­hver í þessum löndum, við­kvæm fyrir hitanum, munu láta lífið. Tvær hita­bylgjur á sama árinu eru ekki eðli­legt á­stand. Hita­met sem falla hvert ár eru ekki eðli­legt á­stand. Flóðin og felli­byljirnir verða enn hættu­legri. En samt er þrætt fyrir hnatt­ræna hlýnun og að bregðast þurfi við lofts­lags­vanda. Af því að það er rigning og kalt í Reykja­vík.