Íslenska sumarið er dásamlegast í heimi og gerir vetrardvölina svo sannarlega þess virði. Þegar sumarið birtist ekki eru vonbrigðin í samræmi við væntingarnar. Það er ekki nándar eins gaman að leggjast í fallega laut og hlusta á regnið og það er að hlusta á lækjarnið, fuglasöng og stöku flugu.
Í kulda og súldinni verður stór hluti Íslendinga heldur óþreyjufullur eftir sólinni og almennilegu sumri. Margir hafa jafnvel gefist upp á biðinni og pantað á síðustu stundu ferðir til sólarlanda, þar sem draumurinn um letilíf á ströndinni í sól og hlýindum ræður för. Við sjáum fyrir okkur sólbekki, öldugjálfur og svalandi drykki.
Líkur eru á að þau sem eru að fljúga út fái heldur meira en keypt var í pakkaferðinni. Önnur hitabylgja ársins gengur nú yfir Portúgal, Spán, Frakkland og Bretland. Og ágústhitinn er ekki byrjaður. Viðvaranir eru um að hitinn núna fari jafnvel vel yfir 40 gráður. Varúðarástand er um næstum allt Portúgal vegna hættu á skógareldum. Bretar búa sig undir að núverandi hitamet upp á 38,7 gráður falli í næstu viku. Gera þurfti sérstakar ráðstafanir í gær fyrir þjóðhátíðardaginn í Frakklandi og hætta við flugeldasýningar vegna hita og hættu á gróðureldum.
Í stað þess að leita uppi sól munu sumarþyrstir Íslendingar í þessum löndum vonandi fara varlega. Gæta sín á sólsting, leita uppi skugga og drekka nóg vatn. Einhver í þessum löndum, viðkvæm fyrir hitanum, munu láta lífið. Tvær hitabylgjur á sama árinu eru ekki eðlilegt ástand. Hitamet sem falla hvert ár eru ekki eðlilegt ástand. Flóðin og fellibyljirnir verða enn hættulegri. En samt er þrætt fyrir hnattræna hlýnun og að bregðast þurfi við loftslagsvanda. Af því að það er rigning og kalt í Reykjavík.