Viðbrögðin við frumvarpi um tímabærar breytingar á samkeppnislögunum hafa verið fyrirsjáanleg. Á Íslandi er það orðin rík tilhneiging sumra að bregðast sjálfkrafa hart gegn öllum tillögum sem miða að því að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins – skiptir þá engu þótt aðeins sé verið að færa regluverkið nær því sem þekkist í öðrum Evrópuríkjum – og skeyta lítt um að of íþyngjandi reglubyrði getur valdið þjóðfélaginu í heild miklum kostnaði. Eftir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kynnti frumvarp sitt í vikunni, sem er liður í stuðningi stjórnvalda við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á árinu, höfum við orðið vitni að þessu.

Um hvað snýst frumvarpið? Stærstu breytingarnar, sem hafa jafnframt verið gagnrýndar hvað harðast, eru þær að heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla er afnumin og þá verður það á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort lögbundin skilyrði eru fyrir samstarfi í stað þess að þurfa að bíða, stundum svo misserum skiptir, eftir undanþágu frá stofnuninni. Markmiðið er að auka skilvirkni og hagræði fyrir atvinnulífið en um leið að hraða og bæta meðferð samkeppnismála sem er til þess fallið að minnka álagið á Samkeppniseftirlitið sem stofnunin hefur sjálf kvartað mjög yfir. Þá er felld út heimild eftirlitsins til að grípa til aðgerða, eins og að brjóta upp fyrirtæki, án þess að þau hafi gerst brotleg við samkeppnislög og veltumörk vegna tilkynningarskyldra samruna, sem hafa haldist óbreytt frá 2008, eru hækkuð nokkuð frá því sem nú er. Það er mjög til bóta en 40 prósent af tíma stofnunarinnar í fyrra var varið í samruna.

Sumir álitsgjafar hafa lagt sig fram um að misskilja hvað felst í tilteknum breytingum í þeim tilgangi, að því er virðist, að afvegaleiða umræðuna. Það sætir undrum þegar því er haldið fram, af hálfu fyrrverandi stjórnarformanns Samkeppniseftirlitsins, að verið sé í reynd að leyfa fyrirtækjum að brjóta lög og eiga með sér samráð og grafa þannig undan samkeppni. Svo er vitaskuld ekki. Breytingarnar lúta aðeins að því að fyrirtæki geti haft með sér afmarkað samstarf, meðal annars fjármála- eða fjarskiptafyrirtæki um sameiginlega innviði, án þess að þurfa að bíða eftir samþykki um undanþágu, sem stundum hefur tekið vel á annað ár, og þannig mögulega verða af þeim ávinningi sem af slíku samstarfi kann að leiða – fyrir fyrirtækin og eins neytendur. Í megin­atriðum miða breytingarnar að því að regluverkið verði eins og almennt gildir hjá öðrum EES-ríkjum og því fráleitt þegar sagt er að verið sé með einhverjum hætti að „draga vígtennurnar“ úr Samkeppniseftirlitinu.

Staðan sem birtist okkur með reglubundnum hætti er þessi. Það er skoðun ákveðins hóps í samfélaginu að Ísland skuli, byggt á hugmyndafræði um að meira eftirlit sé ávallt betra en minna, frekar en nokkurn tíma einhverjum haldbærum rökum, vera eftirbátur okkar nágrannaríkja á flestum þeim sviðum sem máli skipta þegar kemur að því að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og þá um leið styrkja samkeppnisstöðu landsins. Allt tal um að nú standi til að veikja Samkeppniseftirlitið stenst enga skoðun. Frumvarp ráðherra, sem er í senn hófstillt og skynsamlegt, er skref í rétta átt og ætti að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins og um leið tryggja hagsmuni neytenda. Því ber að fagna – og styðja.