Góð og vitur vinkona mín missti manninn sinn ung að árum. Síðar eignaðist hún aftur góðan mann. Þegar þau hófu samleið tjáði hún honum að ein stór forsenda fyrir sambandinu væri sú að hann gæti látið sér þykja vænt um minningu látins eiginmanns hennar og barnsföður, þannig yrði hinn látni alltaf hluti af lífi þeirra. Við tölum gjarnan um minningu látinna ástvina sem ljós á vegi okkar. Það merkir að við ætlum að halda áfram lífsgöngunni en eiga framtíðartengsl við þau sem farin eru í gegnum lifandi minningar. Hér áður fyrr var algengt að forðast að nefna dána ástvini, í þeirri von að sorgin hyrfi. Það er vond hugmynd.

Ég var komin vel til manns þegar ég uppgötvaði að faðir minn hafði eignast bróður sem lést aðeins nokkurra mánaða gamall. Sá hét Ingvi og föðuramma mín, sem ung hafði misst móður sína og einnig 19 ára bróður úr berklum, minntist aldrei á þennan son. Amma mín var orðin mjög hjartveik um fertugt og lést af þeim völdum á miðjum aldri. Ég óttast að það hafi verið hjartasár. Það er mikilvægt í allri sorgarúrvinnslu að búa til framtíðartengsl við þann sem er farinn. Ég hef til dæmis valið að eiga þau framtíðartengsl við látinn föður minn, að dvelja ekki í erfiðum veikindum hans heldur láta hans ráðgefandi rödd heyrast í mínu daglega lífi. Ég deili gjarnan lífsgildum og ýmsum tilsvörum hans með afkomendum mínum. Þannig fylgir hann okkur alltaf, þótt þau yngri hafi aldrei fengið að njóta hans í lifanda lífi.

Næsti sunnudagur er tileinkaður minningu látinna. Við skulum tendra ljós í tilefni af því og ígrunda framtíðartengsl okkar við látna ástvini. Þannig verður minning þeirra ljós í lífi okkar.