Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því.“ Þetta eru upphafsorð í kafla um fjármálakerfið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Sáttmálinn var kynntur í nóvember 2017. Ári eftir framlagningu stjórnarsáttmálans var síðan hvítbók um framtíðarskipan fjármálakerfisins kynnt, en þar er um að ræða vandað skjal þar sem allar hliðar þeirra mála voru skoðaðar. Uppbyggilegar og góðar umræður áttu sér stað á Alþingi um hvítbókina.

Í maí 2016 auglýsti Bankasýslan síðan eftir ráðgjöfum vegna hugsanlegrar sölu á 30 prósenta hlut í Landsbankanum. Það ferli stöðvaðist síðan vegna þess að brestir urðu í ríkisstjórnarsamstarfi á þeim tíma og boðað var til kosninga.

Í mars 2020 var svo farið af stað með söluferli á Íslandsbanka, en því var frestað vegna heimsfaraldurs sem lítið var vitað um á þeim tíma. Nú hefur rykið sest að einhverju leyti í þeim efnum og þráðurinn í söluferli Íslandsbanka verið tekinn upp á ný.

Með öðrum orðum ætti öllum að vera ljóst að stefna stjórnvalda hefur verið að draga úr þátttöku ríkisins á fjármálamarkaði um margra ára skeið og það í gegnum valdatíma hinna ýmsu ríkisstjórna. Þrátt fyrir það vilja ýmsir halda því fram, sama hvort það eru þingmenn, stjórnmálaflokkar eða annars konar þrýstiöfl að það söluferli sem nú er í startholunum komi að einhverju leyti á óvart.

Einnig hafa hin þreyttu rök um að ekki sé boðlegt að gera hitt og þetta „í miðjum heimsfaraldri“ óspart verið notuð um söluferli Íslandsbanka. Nánast allir hafa þurft að slá einhverjum fyrirætlunum á frest sökum faraldursins á síðastliðnum 12 mánuðum. Er ekki kjörið að reyna að halda áfram með þau verkefni sem er þó hægt að halda áfram með, þó að ekki hafi náðst að kveða faraldurinn í kútinn? Ekki er hægt að kvarta yfir tímasetningunni með tilliti til verðþróunar á fjármálamörkuðum, svo maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna faraldurinn er sérstök hindrun í þessum efnum?

Sami faraldur hefur síðan gert það að verkum að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2020 til 2021 mun slaga hátt í 600 milljarða. Vilja þeir sem leggjast gegn sölu banka í eigu ríkissjóðs frekar hlaða meiri skuldum á bak framtíðarkynslóða en þegar er orðið? Eða er skynsamlegra að ríkið dragi sig úr samkeppnisrekstri á áhættusömum markaði og innleysi um leið myndarlegan söluhagnað?