Við lifum á tímum umburðarlyndis og virðingar fyrir öllu fólki og öllum hópum. Engu að síður hefur verið í gildi þögult samkomulag um að taka eina stétt út fyrir sviga að þessu leyti. Það eru íþróttadómarar.

Þessi stétt hefur verið atyrt og svívirt meira en flestar aðrar og tekur því af aðdáunarverðri auðmýkt og æðruleysi. Aldrei svara þeir fyrir sig, aldrei koma dómarar saman og öskra á áhorfendur eða gagnrýna leikmenn. Það sem meira er þá virðist enginn hörgull vera á áhugasömu fólki til að klæða sig í þrönga búninga, sem skilja ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið, hlaupa upp og niður íþróttavelli fyrir framan þúsundir áhorfenda og henda sér svo á sverðið með leiftursnöggri ákvarðanatöku upp á líf eða dauða fyrir leikinn.

Tímarnir eru þó að breytast. Nú í haust tók enska úrvalsdeildin VAR-tæknina í notkun. Með henni getur dómari stöðvað leikinn og látið sérfræðinga í nærliggjandi herbergi skoða tiltekin vafaatvik á skjáum og skera úr um þau.

Fyrirfram hljómar þetta kannski skynsamlega en útkoman hefur verið fullkomið mannrán tækninnar á leiknum. Leikmenn þora ekki að fagna mörkum lengur og dómarar eru orðnir eins og unglingar með snjallsíma á stöðugu spjalli við félagana í tækniherberginu.

Það versta við þessa þróun er hins vegar að hið fallega ástar- og haturssamband áhorfenda og dómara er í uppnámi. Hvern á ég að hata eða eftir atvikum elska einlægt í nokkrar mínútur þegar úrskurðað er í einhverju fjarlægu bakherbergi um vítaspyrnu á lokamínútunni? Tölvubúnað og nafnlausa tæknimenn?

Ef stétt íþróttadómara fer í herferð til að berjast gegn tæknivæðingunni liggur slagorðið í augum uppi: Það er skemmtilegra að hata manneskjur af holdi og blóði!