Dagur eitt í einangrun hjá manneskju númer 2.396 til að smitast af COVID á Íslandi.

Með orðinu kóf er annars vegar átt við „þétt snjófok í nokkrum vindi“ og hins vegar „þétta reykjarsvælu“. Kófið lýsir ástandinu í hugarheimi COVID-sjúklingsins ágætlega, þar er nokkuð þétt snjófok, í bland við kófhríð, skafrenning, fjúk, skafbyl og svælu. Ég bið hér með alla sem ég er í tölvupóstsamskiptum við fyrirfram afsökunar á innsláttarvillum og almennum skorti á samhengi.

Þegar maðurinn minn greindist á mánudaginn sat ég á fundi með sjö manneskjum sem nú eru komnar í sóttkví (aftur, afsakið). Ég hljóp út, fór rakleiðis heim og sagði honum að halda sig inni í svefnherbergi. Svo sótthreinsaði ég alla fleti og taldi mig bara vera með þetta nokkuð mikið á hreinu. Hanskar og grímur, matur á bakka fyrir framan dyrnar að fangaklefa sjúklingsins. Þetta stutta sprittstríð var augljóslega tapað þegar ég og sonur minn greindumst á miðvikudag. Á fimmtudagsmorgun fóru tvö börn á heimilinu til viðbótar í prufu. Vonandi sleppur elsta barnið alveg.

Kosturinn við það þegar allir á stóru heimili sýkjast er að umgengni um sameiginleg rými er leyfileg, matartímar verða minna vesen og allir geta notað sama baðherbergið. Gallinn, fyrir utan að við erum hundveik, er að við erum upp á aðra komin með vistir. Sem betur fer á ég góða systur sem skilur mat, verkjalyf og annað sem okkur sárvantar allt í einu, eftir við útidyrahurðina. Eins og bragðaref, sem bráðliggur á ef bragðskynið skyldi nú fjúka í kófið með öllu hinu.

Sjáumst 1. október.