Við upphaf COP fóru þjóðarleiðtogar upp í pontu hver á eftir öðrum og ræddu um hversu alvarlegt vandamál loftslagsbreytingar væru og að við þyrftum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við þeim.

Eftir slíkar yfirlýsingar skaut því skökku við þegar þeir tilkynntu markmið sín, sem voru í engu samræmi við það neyðarástand sem þeir höfðu lokið við að lýsa.

Þjóðarleiðtogar brugðust því núverandi og komandi kynslóðum, með því að skorta pólitískan vilja til að tryggja það að við takmörkum hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu, sem er eini valkosturinn í stöðunni ef við viljum eiga möguleika á farsælli framtíð fyrir okkur og þær lífverur sem deila með okkur plánetunni.

Það er þó lán í óláni að aðildarríki samningsins skildu að núverandi markmið sem stefna okkur í 2,4 gráða hlýnun eru óásættanleg, og var því ein niðurstaða ráðstefnunnar að hvetja aðildarríki til að uppfæra markmið sín strax á næsta ári.

Eins og forseti COP26, Alok Sharma, og aðalritari SÞ, António Guterres, höfðu orð á, tókst okkur í Glasgow að halda markmiðinu um 1,5 gráður á lífi, en það er því miður í öndunarvél í bili, og lífslíkur þess ráðast alfarið af því hvort ríki uppfæri markmið sín að ári liðnu og breyti yfirlýsingum í aðgerðir, og það strax.

Ísland er þar alls ekki undanskilið, en það er alveg ljóst að við höfum fulla burði til að gera miklu betur. Ísland er, og hefur verið, hluti af sameiginlegu landsframlagi með ríkjum Evrópusambandsins og Noregi til Parísarsáttmálans, en uppfærða markmiðið hljóðar nú upp á 55% samdrátt í losun fyrir svæðið sem heild fyrir 2030.

Útfærsla á þessu markmiði stendur enn yfir svo við vitum ekki hver hlutur Íslands verður, þ.e.a.s. hvað Íslandi verður úthlutað miklum samdrætti. Við vitum þó að ríki sem eru einnig hluti af þessu sameiginlega framlagi hafa sett sér, og lögfest, sjálfstæð markmið um samdrátt í losun fyrir 2030 sem ganga lengra en sá hlutur sem þeim verður úthlutað, og þarf Ísland að gera slíkt hið sama.

Ísland sendi svo inn, í fyrsta skipti fyrir þessa ráðstefnu, langtímaáætlun um litla losun gróðurhúsalofttegunda. Þar var stillt upp sviðsmyndum sem sýna mismunandi leiðir til að ná kolefnishlutleysi á Íslandi fyrir 2040. Þetta var fyrsta skrefið en nú þarf að stofna til frekara samtals við almenning um það hvernig kolefnishlutlaust Ísland við viljum, ákvarða það, uppfæra langtímaáætlunina okkar og senda inn.

Þannig getum við mætt á næstu loftslagsráðstefnu með framlag sem sýnir að Ísland ætlar að gera sig gildandi í loftslagsmálum og sýnt í verki að við viljum svo sannarlega stuðla að því að markmiðið um 1,5 gráður raungerist, líkt og stjórnvöld hafa margsinnis lýst yfir.

Ég enda því á ákalli til komandi ríkisstjórnar, og allra sem á þingi eða í valdastöðu sitja: Sýnið í verki að ykkur er annt um framtíð okkar allra. Augu núverandi og komandi kynslóða hvíla á ykkur, og valið er einfalt: Að vera minnst fyrir aðgerðaleysi, eða hugrekki og metnaðarfullar aðgerðir sem tryggðu farsælt líf fyrir komandi kynslóðir.