Þriðjungur lands­manna nær ekki endum saman um mánaða­mót eða gerir það með naumindum, ef marka má nýja könnun Frétta­blaðsins, sem fjallað var um á for­síðu blaðsins í gær.

Kjara­samningar flestra laun­þega í landinu renna út á næstu mánuðum. Tals­menn at­vinnu­lífsins eru þegar farnir að senda út sín venju­bundnu varnaðar­orð um að svig­rúm til launa­hækkana sé ekki fyrir hendi, en miðað við niður­stöðu könnunarinnar þarf al­þýðan að fara að bretta upp ermar því staðan hefur versnað frá síðasta ári, þegar fjórðungur lands­manna var í vand­ræðum eða á nippinu fjár­hags­lega.

Sam­kvæmt könnuninni hefur lág­launa­fólkið það verst, eins og við er að búast. Það kemur því ekki á ó­vart að for­svars­fólk Eflingar og þeirra stéttar­fé­laga sem gæta hags­muna stétta sem lægst hafa launin, sé að brýna sig fyrir komandi bar­áttu.

Þegar rýnt er betur í könnunina kemur einnig í ljós að fólk á leigu­markaði er í á­berandi verri að­stöðu til að ná endum saman en fólk sem býr í eigin hús­næði. Rúm­lega tuttugu prósent ís­lenskra heimila eru í leigu­hús­næði. Um fjöru­tíu prósent þeirra ná endum saman með naumindum, níu prósent til við­bótar eru að ganga á spari­fé sitt og á­tján prósent eiga ekkert spari­fé til að ganga á og safna skuldum. Þetta eru sam­tals 66 prósent þeirra sem eru á ís­lenskum leigu­markaði og ef­laust sama fólkið og á hvorki fyrir út­borgun í eigið hús­næði, né kærir sig um að flytja út á land þar sem ríkið bíður hlut­deildar­lán sem virðist af ein­hverjum á­stæðum ó­mögu­legt að fá á höfuð­borgar­svæðinu.

Lifandi leigu­markaður hefur ekki blómstrað á Ís­landi svo lengi sem elstu menn muna. Kannski aldrei. Það er synd því þak yfir höfuðið er svo snar þáttur í lífi fólks og í valinu felst mikið frelsi. Sá litli markaður sem fyrir hendi er, er annað hvort í lokuðum kerfum fyrir náms­menn, ör­yrkja og fólk sem lifir undir fá­tæktar­mörkum og nýtur réttar til fé­lags­legs leigu­hús­næðis á vegum sveitar­fé­laganna, eða frjálsi leigu­markaðurinn sem býður í flestum til­vikum ekki upp á annað en ó­öryggi og okur.

Allt bendir til þess að sú samninga­lota sem fram undan er á vinnu­markaði verði hörð. Til að liðka fyrir henni er þess vænst að ríki og sveitar­fé­lög leggi til ein­hverjar lausnir í hús­næðis­málum. Það væri sterk inn­koma að móta betri um­gjörð um leigu­markað með góðum opin­berum stuðningi fyrir leigj­endur, bæði þá sem þurfa sér­stakan stuðning að­stæðna sinna vegna og fyrir þá sem velja, frelsisins vegna, að vera á leigu­markaði.