Í vor þegar heimsfaraldurinn skall á og atvinnulífið lamaðist að miklu leyti í einu vetfangi heyrðust raddir þess efnis að fresta ætti fyrirhuguðum launahækkunum þar til úr rættist. Verkalýðsforystan, öll sem ein, þvertók fyrir þessar hugmyndir og sló þær umsvifalaust út af borðinu. Hækkanir sem samið hafði verið um í hinum svokallaða Lífskjarasamningi við allt aðrar aðstæður rúmu ári fyrr skyldu taka gildi hvað sem tautaði og raulaði.

Nú þegar ljóst er að áhrifa faraldursins muni gæta mun lengur en vonast var til í vor koma á ný fram hugmyndir um að fresta fyrirhuguðum launahækkunum. Og enn þvertaka forystumenn stéttarfélaganna fyrir að það verði gert. Í umboði hverra, spyr ég. Vissulega voru samningarnir samþykktir með atkvæðagreiðslu launafólks á sínum tíma, en síðan þá hafa forsendur gerbreyst. Heilu atvinnugreinarnar hafa nánast þurrkast út og tugþúsundir misst vinnuna.

Ég var ekki spurður að því í vor hvort ég vildi fresta launahækkunum til að létta fyrirtækinu sem ég vann hjá róðurinn. Mér fannst út í hött að fá launahækkun um leið og fyrirtækinu blæddi út og var nánast tekjulaust. Nær hefði verið að semja um tímabundna launalækkun til að auka líkurnar á því að fyrirtækið héldi lífi og ég héldi vinnunni. Vissulega er sárt að gefa eitthvað eftir sem barist hefur verið fyrir, en menn verða að gera sér grein fyrir því að ef mjólkurkýrin er svelt til dauða fást ekki mikil nyt úr henni.

Sem betur eru enn atvinnugreinar og fyrirtæki sem blómstra, en samkvæmt almennum mælikvarða er skollin á kreppa sem sér ekki fyrir endann á. Það eru til fyrirtæki sem þola alveg að greiða hærri laun, en stór hluti þeirra er ekki í stakk búinn til þess. Og að hækka laun hjá því opinbera nú er bara að pissa í skóinn sinn við þessar aðstæður þar sem ríkissjóður er rekinn með bullandi tapi til að reyna að halda uppi atvinnustigi og grynnka með því kreppuna.

Allt á sinn tíma og sinn stað. Bæði að draga línu í sandinn og að teygja sig yfir þá línu með útrétta sáttarhönd heildinni til góða. Nú ríður á að allir rói í sömu átt. Ég legg til að verkalýðsleiðtogar sem þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af því að launagreiðendur þeirra leggi upp laupana kanni hug félagsfólks síns til þess hvort það vilji frekar fresta fyrirhuguðum hækkunum eða standa stíft á þeim og auka þar með líkurnar á því að það verði atvinnulaust.