Mig rekur ekki minni til þess að einhvern tímann hafi íslenskur stjórnmálamaður, eða yfirleitt nokkur áhrifamanneskja, barist fyrir því að þegar kæmi að íslenskri, vistvænni orku yrði forgangsröðunin sú, að fyrst skyldum við selja fyrir slikk sem mest af henni til erlendra stórfyrirtækja, og svo skyldi almenningur í landinu – og orkuþörf hans – vera í öðru sæti. Mér finnst eins og mun fremur hafi ríkt mikill og víður einhugur um það á Íslandi að orkan sem framleidd er í landinu skuli fyrst og fremst gagnast til að sinna orkuþörf fólksins í landinu, sem kallað er. Til að mynda ríkir hér nokkuð djúpstætt stolt yfir því að orkan skuli nýtast til að hita upp nánast allan húsakost og til að færa fjölskyldum og fyrirtækjum nánast allt rafmagn sem til þarf svo hægt sé að reka nútímaleg heimili og fyrirtæki.

Um þessa nýtingu á orku Íslendinga hefur ríkt mikil sátt. Hins vegar hefur alls ekki ríkt sátt um þær ákvarðanir sem að öðru leyti hafa verið teknar varðandi orkuauðlindirnar. Á síðari hluta síðustu aldar og í upphafi þessarar myndaðist mikið kapphlaup á meðal hagsmunaaðila og vissra stjórnmálaafla, í andstöðu við um það bil helming þjóðarinnar gróft á giskað, um að framleiða mun meiri orku heldur en þurfti til að sinna almenningi og reyna eftir fremsta megni að nota hana til þess að fá hingað til lands stórfyrirtæki sem sköpuðu störf á afmörkuðum svæðum. Á tímabili kvað svo rammt að þessum hugsunarhætti að ekki var talað um að selja þessum fyrirtækjum orku heldur var fjálglega talað um það að afhenda þeim hana, sem reyndist vera lýsandi orðalag því orkuverðið var hlægilegt. Auk þess var þessum fyrirtækjum boðin alls konar vildarkjör varðandi skatta og opinber gjöld.

Nú er staðan sú að upp undir 80% af orkunni sem Íslendingar framleiða rennur til þessara örfáu, en stóru fyrirtækja. Og þó svo að það hafi tekist að vinda ofan af upphaflegum samningum um orkusölu til þeirra og gera þá hagstæðari Íslendingum, stendur eftir sú staðreynd að um þessa stefnumörkun – um þennan hluta orkuframleiðslunnar – hefur aldrei ríkt nokkur einasti einhugur. Það er stóra staðreyndin þegar kemur að orkumálum þjóðarinnar. Ekki er hægt að láta eins og þetta ósætti sé ekki til – eða auðveldlega megi skauta fram hjá því – þegar kemur að því að taka ákvarðanir um framhaldið.

Ósættið byggir á málefnalegum grundvallarmun á því hvernig fólk sér samfélagið fyrir sér. Á það var margoft bent að Íslendingar hefðu getað – og geta enn – farið fjölmargar aðrar leiðir til þess að skapa störf og atvinnu, farsæld og hagvöxt. Það þurfti ekki að fórna náttúruperlum fyrir virkjanir handa álverum. Við síðustu rimmuna um virkjun og vernd, í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar, hlógu virkjunarsinnar og fórnuðu mjög höndum yfir þeim sjónarmiðum að sigurstranglegra væri að veðja frekar á aðrar atvinnugreinar en kolefnisspúandi málmiðnað. Hlegið var að hugmyndum um uppbyggingu á til dæmis ferðaþjónustu. Nú er hins vegar ferðaþjónusta stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Og vistvænn hugverkaiðnaður gæti orðið enn stærri.

Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um virkjanir og orkusölu – fyrir utan þær sem hafa verið teknar með það að markmiði að sinna þörf almennings – eru í stuttu máli ein samfelld hörmungarsaga. Framsýni hefur algjörlega skort. Það er eins og mikilvægar og ógnarstórar ákvarðanir hafi verið teknar án heilbrigðs framheila. Það er til nóg af orku, var sagt. Fáum fullt af álverum! Eftir á að hyggja – og eiginlega fyrir fram að hyggja líka, eins og margir bentu á – er erfitt að sjá á hvaða rökum slíkar yfirlýsingar voru byggðar, ef nokkrum. Hver var pælingin? Var fólk undir áhrifum áfengis?

Orkan er að sjálfsögðu ekki endalaus. Hún er eiginlega fremur lítil. Þar að auki hefur framleiðslan á henni í för með sér töluverðan fórnarkostnað. Leggja þarf náttúru í rúst. Tal um ógrynni orku hefur alla tíð verið einstaklega ábyrgðarlaust. Eiginlega er það rannsóknarefni í sjálfu sér, hvað var í gangi.

Nú er úr vöndu að ráða í orkumálum. Ekki verður hægt að keyra samgöngur á landi, lofti og hafi á jarðefnaeldsneyti mikið lengur. Til þess að sinna þeirri þörf þarf raforku. Íslendingar geta gert tvennt í þeirri stöðu: Framleitt hana hér eða flutt hana inn.

Nú þegar heimilin og fyrirtækin þurfa meira rafmagn, er mjög mikilvægt að spurt sé: Hefur forgangsröðunin breyst? Er ekki orkuþörf almennings enn þá númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að því að nýta orkuna? Ef svo er, liggur fyrir að orkan sem við framleiðum – og sátt er um að framleiða – getur ekki runnið til álvera.

Svo einfalt er það.