Á­gæti út­varps­stjóri!

Þær lúmsku hræringar sem hófust fyrir rúmu ári síðan hafa nú magnast upp í meiri háttar ham­farir í geldinga­dölum ís­lenskunnar. Geldinga­dalir eru það sannar­lega, því mark­visst er unnið að því í fjöl­miðlum að svipta tungu­málið okkar fegurð sinni og þokka. Aldrei hefði mig órað fyrir að Ríkis­út­varpið færi þar fremst í flokki – sú stofnun sem ég hef frá blautu barns­beini borið mikla virðingu fyrir og tekið mér til fyrir­myndar hvað mál­far snertir.

Upp á síð­kastið hafa æ fleiri frétta­menn stofnunarinnar tekið sér í munn þá ný­lensku sem öðru hverju heyrðist í fyrra, en sem nú virðist hafa verið fyrir­skipuð að ofan. Þar á ég við orð­bragð á borð við stuðnings­fólk, hesta­fólk, björgunar­fólk, lög­reglu­fólk og aðila í alls kyns sam­setningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunar­sveitar- og lög­reglu­manna, o.s.frv. Frá alda­öðli hefur verið hefð fyrir því í ís­lensku að vísa til ó­skil­greindra hópa með tölu­orðum og forn­öfnum í karl­kyni, en tals­menn ný­lenskunnar eru þessu and­snúnir, svo ekki er lengur talað um að þrír hafi verið hand­teknir, heldur þrjú, ekki minnst á þá sem brutu af sér, heldur þau, o.s.frv. Þessi tals­máti er ekki að­eins af­kára­legur, heldur krefst hann þess af frétta­mönnum að þeir hafi komist að því fyrir frétta­lesturinn hvort um­ræddir voru karlar eða konur.

Það sem virðist hafa gleymst er að konur eru og verða alltaf menn. „Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona, það á að kjósa mig af því að ég er maður, og innan orðsins maður er bæði karl og kona,“ sagði Vig­dís Finn­boga­dóttir árið 1980. Þetta hefur lýðum verið ljóst fram að þessu, en nú er allt gert af á­kveðnum þrýsti­hópum til að vé­fengja það. Á vef­síðu RÚV stendur: „Ríkis­út­varpið er út­varp allra lands­manna.“ (Seinasta orðið hefur greini­lega gleymst að strika út í takt við ný­lensku­stefnuna.) Þar af leiðandi er stofnunin í leið­toga­hlut­verki. Þar stendur einnig: „Við leggjum sér­staka rækt við ís­lenska tungu,“ en í þeirri rækt hefur Ríkis­út­varpið al­ger­lega brugðist, ein­mitt þegar þetta hlut­verk þess hefur aldrei verið mikil­vægara. Ungt fólk í dag les tak­markaðan fjölda bóka og sækir sér alla sína af þreyingu og upp­lýsingar ýmist á netið, í hlað­varp eða út­varp. Mál­vitund þess veltur því nær ein­göngu á þeim fyrir­myndum sem það fær á slíkum miðlum. Þar af leiðandi eru á­hrif RÚV gífur­leg. Eins og fram kemur á vef­síðu ykkar nýta meira en 70 prósent þjóðarinnar sér þjónustu Ríkis­út­varpsins dag­lega. Ný­lenskunni er því þvingað upp á stóran hluta þjóðarinnar á degi hverjum.

Stuðningur við ný­lenskuna er á mis­skilningi byggður. Hún hefur nefni­lega ekkert með frjáls­lyndi eða kven­réttindi að gera, heldur ber hún ein­fald­lega vott um ein­strengings­legan hugsunar­hátt og al­geran skort á mál­til­finningu. Hún snýst ekki um jafn­réttis­bar­áttu heldur ýmist um of­stæki, sýndar­mennsku eða ótta við álit þrýsti­hópa. Það er hrein fá­sinna að líta á þessa af bökun tungu­málsins sem mikil­vægt vopn í bar­áttunni fyrir jafn­rétti. Það er sömu­leiðis út í hött að vinna mark­visst að því að út­rýma orðum sem eru fjarri því að kasta rýrð á nokkurn hóp. Þeir sem ný­lenskunni beita af­mynda tungu­málið undir yfir­skini til­tekinnar hug­mynda­fræði, en um leið rýra þeir og raska hefð­bundinni merkingu fjöl­margra orða.

Af­leiðingin verður annars vegar sú að þeir sem ekki að­hyllast ný­lenskuna eru brenni­merktir sem karl­rembur eða í­hald­s­pakk, og hins vegar sú að nýja kyn­slóðin fær brenglaðan skilning á öllu sem áður var ritað. Hún fer t.d. að trúa því að hesta-, björgunar­sveitar- og starfs­menn hafi aldrei verið annað en karl­kyns. Af lestri gamalla frétta mun hún í­mynda sér að allir sem nokkurn tíma hafi verið hand­teknir, fluttir á sjúkra­hús, eða verið með ó­spektir í mið­bænum hafi verið karl­menn. Hún mun á­lykta að manna­mót hafi verið karla­sam­komur, manna­matur hafi verið ætlaður körlum einum, mann­gengir hellar verið lokaðir konum, að mann­ýg naut hafi að­eins ráðist á karla, o.s.frv.

Ef fram fer sem horfir mun verða brýn þörf á að fá and­lausa skrif­finna, sér­hæfða í tungu geld­leikans, til að endur­rita allar okkar bók­menntir og aðrar ritaðar heimildir sem fylgt hafa þjóðinni um aldir. Þar mun mann­dráps­veður trú­lega verða kallað fólks­dauða­veður, manna­fælur ein­stak­linga­fælur, mann­gangur stykkja­hreyfingar, manna­mál fólks­mál, mann­broddar ein­stak­lings­broddar, lands­menn lands­fólk, mann­tal manneskju­tal, manna­mót aðila­hittingar, og skessur munu ekki lengur finna manna­þef í helli sínum, heldur aðila­fýlu.

Sjálfri finnst mér aðila­fýlan ó­bæri­leg og ég hvet þig, á­gæti út­varps­stjóri, ein­dregið til þess að gera allt sem í þínu valdi stendur til þess að eyða henni og forða ís­lenskunni frá þeirri ógn sem yfir henni vofir í geldinga­dölum.

Kveðja, Vala Haf­stað