Ég hef í tveimur greinum fjallað um niðurstöður ársreiknings útgerðarfélagsins Vísis hf. árin 2013 og 2020. Tilefnið er samningur um kaup Síldarvinnslunnar á félaginu. Ég taldi að eignir félagsins eins og þær birtast í ársreikningi væru verulega vanmetnar bæði árin.

Reikningarnir eru áritaðir af endurskoðendum félagsins. Stjórnendur félagsins skýra skilmerkilega frá kvótastöðu félagsins í þorskígildiskílóum. Hvorki þeir né endurskoðendur félagsins gera hins vegar tilraun til að meta verðmæti kvótans, þótt slík umfjöllun um raunveruleg verðmæti ófærðra eigna sé óumdeilanlega afar mikilvægar upplýsingar fyrir lesendur og því hluti af þeirra glöggu mynd sem ársreikningurinn skal birta.

Efnahagsreikningurinn gefur því ófullkomna mynd af fjárhagsstöðu félagsins þrátt fyrir skýrar leiðbeiningar í 5. grein ársreikningslaga og hvað varðar ársreikning félagsins 2021 með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 102/2020 um gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra fyrirtækja sem varða almannahag. Þeim lögum, sem sett voru eftir ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er m.a. og sérstaklega beint að sjávarútvegsfyrirtækjum.

Sú staðreynd að eignastaða félagsins Vísis hf. er mun betri en endurskoðaður efnahagsreikningur gefur til kynna kann að hafa átt sinn þátt í að félagið fékk lækkun á veiðigjaldi árið 2013. Þá verður vanmat eigna í ársreikningi til þess að þegar sala félagsins á sér stað virðist sem eigendur selji hverja krónu eigin fjár fyrirtækis á þrjár krónur þegar raunhæfari útreikningar benda til þess að eigendur hafi selt hverja krónu á 50 aura eða minna.

Bæði þessi atriði kalla á umræðu og vangaveltur og eiga erindi við almenning, því rétt eins og endurskoðandi Vísis hf. bendir á í grein í Fréttablaðinu 28.7. sl. eru sterkir almannahagsmunir tengdir við stóru sjávarútvegsfyrirtækin sbr. einnig ákvæði laga nr. 102/2020.

Sú ófullkomna mynd sem árs- og efnahagsreikningur dregur upp í tilfelli Vísis hf. getur ekki verið í samræmi við ákvæði þeirra laga. Röng upplýsingagjöf um markaðsvirði fyrirtækisins er til þess fallin að leiða almenna umræðu á villigötur, hvort sem það er tilgangurinn eða ekki. Í stað þess að spyrja hvort eigendur Vísis hf. séu að „gefa“ Síldarvinnslunni eignir er býsnast yfir að eigendur Vísis séu að selja á þreföldu verði.

Annar tveggja endurskoðenda Vísis hf. fyrtist við vegna athugasemda minna. Virðist hann ekki átta sig á að athugasemdir mínar eru almenns eðlis og beinast ekki að honum persónulega. Ég beini augum að því sem kalla má „íslenska endurskoðunarvenju“ varðandi umfjöllun í ársreikningi um óefnisleg réttindi (kvóta), en sum íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fá slík réttindi, sem eru afar verðmæt, nánast ókeypis til ráðstöfunar.

Án kvótans væru útgerðarfyrirtækin varla rekstrarhæf. Samt láta endurskoðendur íslensku útgerðarfyrirtækjanna eins og þessi réttindi séu borðskraut á skrifborði forstjóra fyrirtækjanna þegar gerð er grein fyrir þeim í ársskýrslu í trássi við ótal ákvæði laga og reglugerða!

Endurskoðandinn virðist telja að gagnrýni á störf fólks í hans starfsstétt eigi ekki erindi við almenning. „Leiðbeinir“ hann mér með því að benda mér á að senda athugasemdir við framkvæmd hans og annarra á ársreikningslögunum til Ársreikningaskrár. Fyrir þá sem ekki vita þá rekur Ársreikningaskrá pósthólf á vegum Ríkisskattstjóra. Þar er tekið við ársreikningum og þeim komið í almenna birtingu á vef RSK.

Ársreikningaskrá hefur heimildir til að sekta lögaðila sem ekki virða tímafresti eða skila ófullnægjandi gögnum. Ársreikningaskrá hefur að öðru leyti ekkert eftirlitshlutverk með túlkun stjórnenda fyrirtækja eða endurskoðenda á ákvæðum ársreikningslaga, a.m.k. ekki hvað varðar upplýsingar sem þarf að birta til að reikningur gefi glögga mynd af árangri í rekstri félags, stöðu þess og þróun. Endurskoðandinn vill sem sagt senda mig í geitarhús að leita ullar!

Endurskoðunarráð er eftirlitsaðili með störfum endurskoðenda, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlitshlutverki að gegna gagnvart endurskoðun félaga sem sterkir almannahagsmunir eru tengdir við (sjá VIII. kafla laga nr. 94/2019). Ég vil benda þessum aðilum á ummæli sem höfð eru eftir endurskoðandanum í samtali við vefmiðilinn visir.is 28. júlí sl. Þar er haft eftir endurskoðandanum: „Hann (Þórólfur, innskot ÞM) er í heilagri pólitískri baráttu gegn sjávarútvegi og kvótakerfi og öllu því.“

Mér þykir rétt að Endurskoðunarráð og eftir atvikum Fjármálaeftirlit athugi hvort þessi ummæli brjóti ekki gegn ákvæðum 23. og 24. gr. laga númer 94/2019. Enn fremur hvort endurskoðaður og áritaður reikningur Vísis hf. vegna ársins 2020 og síðar standist kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 102/2020 og hvort áritun endurskoðanda á þau uppfylli ákvæði 104. gr. ársreikningslaganna.

Endurskoðandinn endar grein sína í Fréttablaðinu 28. júlí sl. á að boða að hann muni kæra skrif mín til siðanefndar Háskóla Íslands. Yfirlýsingin minnir á atvik úr sandkassaleikjum bernskunnar. En henni fylgir þó alvarlegur undirtónn því í henni felst tilraun til þöggunar, ekki bara gagnvart mér heldur gagnvart öllum öðrum háskólamönnum sem hafa vilja og áhuga á að tjá sig um sjávarútvegsmál og framkvæmd sjávarútvegsstefnu. Kannski er það tilgangurinn?