Stjórnmálamenn eiga mikið undir velvild kjósenda sinna. Þetta sýnir sig í prófkjörum flokkanna þar sem frambjóðendur verða að laða til sín kjósendur ætli þeir að ná árangri. Þá er jafnvel leitað utan flokks að stuðningsmönnum, sem leggja það á sig að ganga í flokk viðkomandi frambjóðanda til að greiða götu hans, enda hafa þeir trú á honum þótt þeir deili ekki endilega sýn hans í pólitík. Þess eru dæmi að sérlega greiðviknir einstaklingar hafi á sama tíma verið skráðir í allt að þrjá stjórnmálaflokka. Það vildi bara svo til að þeir þekktu þrjá einstaklinga sem þeir höfðu mætur á og vildu endilega gera þeim öllum greiða. Einn daginn er þetta bóngóða fólk því skráð í þrjá ólíka stjórnmálaflokka. Reyndar gengur síðan misjafnlega að skrá sig úr flokkunum, en það er önnur saga.

Prófkjör eru leið til að raða fólki á lista stjórnmálaflokka. Þótt þetta sé stundum sögð afar lýðræðisleg leið þá ræður lýðræðið bara þegar það þykir henta. Til dæmis er það svo að ef tvær konur raða sér í efstu sæti á prófkjörslista stjórnmálaflokks þá er það talið til verulegrar fyrirmyndar. Ef konurnar eru þrjár þá er árangurinn sagður stórglæsilegur og listinn afar framsækinn og öflugur. Ef tveir karlmenn hlamma sér hins vegar í efstu sætin, hvað þá þrír, þá er illt í efni. Ímynd flokksins er stórlega löskuð og hætta talin á að kjósendur forði sér. Besta ráðið við þessum vanda er að losa sig við allavega einn karlhlunkinn og hafa þannig vilja þeirra sem kusu í prófkjörinu að engu.

Prófkjör geta verið undarleg, en það eiga stjórnmálamenn líka að vita. Furðulegt er þegar þeir stíga fram, mjög pirraðir, þegar þeir náðu ekki þeim árangri sem þeir ætluðu sér. Dæmi um þetta er Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem tapaði nýlega oddvitasæti sínu í Norðvesturkjördæmi fyrir Bjarna Jónssyni, sveitarstjórnarfulltrúa í Skagafirði. Hún sagði leikreglurnar sem viðhafðar hefðu verið í prófkjörinu hvorki heiðarlegar né lýðræðislegar.

Lilja Rafney vildi umfram allt halda þingsæti sínu en Bjarna langaði líka mikið á þing. Lilja Rafney segir að í aðdraganda prófkjörsins hafi um 500 manns bæst í flokkinn. Hún telur þessa viðbót ekki hafa unnið með sér. Bjarni er svo lánsamur maður að 500 manns virðast hafa lagt á sig það erfiði að ganga í Vinstri græna til að styðja hann. Mögulega hafa það verið þung spor fyrir einhverja í þessum fjölmenna hópi að ganga í flokkinn, en hvað gerir maður ekki fyrir manneskju sem maður hefur trú á?

Þegar kemur að stjórnmálum kjósa fjölmargir að styðja einstaka frambjóðendur frekar en að binda trúss sitt við einn flokk. Flokkshollusta er heldur ekki alltaf geðsleg. Einstaklingur sem trúir í blindni á flokk sinn minnir of mikið á meðlim í sértrúarsöfnuði. Hann hefur glatað víðsýninni.

Stjórnmálamenn þurfa með reglulegu millibili að endurnýja umboð sitt hjá kjósendum. Ef það mistekst verða þeir bara að bíta á jaxlinn.