Það er einhver hátíðarbragur yfir deginum í dag. Við vöknum með smá fiðring í maganum – það liggur eitthvað í loftinu og við finnum að kjördagur getur breytt miklu. Við skynjum ábyrgðina og mætum á kjörstað til að velja okkur þjóðhöfðingja. Í dag stöndum við öll jöfn – eigum jafnmikið í forsetanum okkar. Einn kjósandi – eitt atkvæði.

En allt mun þetta breytast að ári þegar kosið verður til Alþingis en þá munu um 250.000 Íslendingar hafa tækifæri til áhrifa. Það sem fæstir vita þó er að áhrif þeirra eru æði mismikil.

Við hjón höfum undanfarin ár kosið í Kraganum – en í því kjördæmi eru allra lélegustu atkvæði landsins. Hvert atkvæði þar vegur aðeins um 50% af atkvæði í NV- kjördæmi þannig að við hjónin verðum að mæta bæði á kjörstað til að hafa sömu áhrif og einn kjósandi þar. Reykvíkingar eru aðeins betur settir því þeirra vægi er 65% og örlítið batnar staðan á Suðurlandi þegar talan er komin í 75%.

Kjósandi sem býr á Akranesi hefur þannig helmingi meira vægi en kjósandi í Mosfellsbæ svo dæmi sé tekið þó einungis 30 km skilji á milli. Þetta fyrirkomulag eru leifar gamalla tíma og er löngu tímabært að hver kjósandi hafi eitt atkvæði sem gildir 100%. En þessu úrelta kerfi er auðvitað viðhaldið því einhver telur sig græða á því – þannig er það alltaf.

Eitt af baráttumálum fyrir næstu alþingiskosningar verður jöfnun atkvæða enda engin glóra í því að einn daginn hafi kjósandi 100% vægi en falli síðan í verðgildi um helming næst þegar kjördagur rennur upp. En í dag ætla ég að njóta þess að vera 100% kjósandi og kjósa forsetann minn – í þeirri von að ég verði ég ekki hálfdrættingur að ári.