Undanfarið hefur mér liðið eins og ég lifi og hrærist í búri. Vegna kórónaveirufaraldursins sem nú geisar er stór hluti veraldar í hálfgerðu stofufangelsi.

Rimlar marka tilveru mína. Eina útivist mín á sér stað í litlum blokkargarði í London sem girtur er af með rammgeru rimlahliði. Allar athafnir mínar eiga sér stað innandyra þar sem ég horfi á umheiminn gegnum rimlagardínur. Aðalsjónvarpssmellur COVID-19 tímabilsins er Netflix-heimildarþáttaröðin Tiger King sem fjallar um eiganda tígrisdýragarðs í Bandaríkjunum. Kaldhæðni vinsældanna rann upp fyrir mér nýlega þegar ég horfði á sex ára dóttur mína arka hring eftir hring í kringum sófann í stofunni, hegðun sem þekkt er hjá dýrum lokuðum í búrum dýragarða.Ellefu vikur eru síðan bresk stjórnvöld lokuðu skólum, flestum verslunum, pöbbum og veitingastöðum og skipuðu öllum sem gátu að vinna heiman frá sér. Margir hugsuðu til þessa nýja lífs með hryllingi. Engin pása frá börnunum. Ekkert að gera. Iðjuleysi og leiðindi um ókomna tíð. Svo virðist hins vegar sem margir hafi orðið fyrir óvæntri opinberun í sóttkvínni.

Nýverið var breskum fasteignasölum leyft að opna aftur. Öllum að óvörum var eftirspurn eftir þjónustu þeirra svo mikil að allt ætlaði um koll að keyra. Fasteignasalar voru á einu máli. Fólki hafði líkað hægur rytmi hins breytta heims, hálftómt dagatalið, þögull vinnusíminn, dagskrárlaus tími með fjölskyldunni. Bretar skipuleggja nú í hrönnum að flytja úr hraða og kraðaki stórborgarinnar í rólyndið í þorpum og sveitum. Því í ljós kemur að rimlar eru ekki nýjung í lífi okkar. Við lifðum og hrærðumst í búrum löngu fyrir COVID-19.


Engilsaxneska orðið „workaholic“, eða vinnufíkill, er talið hafa fyrst komið fram í kanadísku dagblaði árið 1947. Áhyggjur af ofríki vinnu voru þó langt frá því að vera nýjar af nálinni. Fimmtán árum fyrr skrifaði breski heimspekingurinn Bertrand Russell ritgerð til varnar iðjuleysi þar sem hann fullyrti að „mikill skaði hlytist af trú samtímans á að vinna sé dyggð“. Löngu fyrir Kristsburð skrifaði gríski heimspekingurinn Aristóteles um að „hamingjan fyndist í frítímanum“.


Kynslóðum saman hefur okkur verið talin trú um að annir séu hið hæsta tilverustig. Lífið er markaðsvara. Að afla sér lífsviðurværis jafngildir því að eiga sér líf. En í krísum eigum við til að endurmeta hlutina. Hinn nýi „kórónaveiruleiki“ hefur orðið til þess að margir hafa kynnst kostum þess að „vera“ í stað þess að „gera“. Það sem áður var hulið sjónum blasir nú við: Annríki eru hinir ósýnilegu rimlar í búri sérhvers manns.


Ríkisstjórnir um heim allan leitast nú við að afnema höft sem komið var á til að stöðva útbreiðslu kórónaveirunnar. Til stendur að endurreisa veröld sem var. En viljum við veröldina nákvæmlega eins og hún var?


Gárur kórónaveirunnar gjálfra við framtíðarstrendur. Skaðinn af COVID-19 mun setja mark sitt á komandi kynslóðir. En áfallið sýndi einnig fram á að hlutirnir geta verið öðruvísi en þeir eru: Mengun í borgum heimsins snarminnkaði; bifreiðar viku fyrir skokkurum og börnum að leik; ágeng píp snjallsíma hljóðnuðu; starfsfólk gat unnið að heiman og þurfti ekki að hanga innilokað í farartækjum til að komast í og úr vinnu; foreldrar áttu fjölbreyttari samtöl við börn sín en „hvert í fjandanum settir þú skóna þína, við erum orðin allt of sein?“.


Við stöndum á tímamótum. Hyggjumst við æða inn í framtíðina af andvaraleysi og leggja undir okkur morgundaginn með hugmyndum gærdagsins? Hyggjumst við hverfa aftur til þess tíma er við örkuðum stanslaust í hringi eins og dýr í búri, fangar eigin annríkis? Eða hyggjumst við móta framtíðina með hugmyndaflugið að vopni, eftir eigin óskum?