Í vikunni mætti ég ásamt nafna mínum, Ísleifssyni, í Bítið á Bylgjunni til Heimis og Gulla að ræða hremmingar erlendra banka og efnahagsástandið hér á landi. Um árabil vorum við þar vikulegir gestir og ræddum málefni líðandi stundar.

Ég sagðist hafa samúð með Seðlabankanum og Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra sem stæði einn í baráttunni við verðbólguna á meðan ríkisfjármálin eru í molum og ríkissjóður rekinn með meira en 100 milljarða halla.

Ég hef gjarnan gagnrýnt Seðlabankann og seðlabankastjóra en ég geri mér grein fyrir því að verkefni bankans er ekki auðvelt þegar skelfilegur rekstur ríkissjóðs er helsta vandamálið sem bankinn þarf að kljást við.

Seðlabankinn á skilið gagnrýni vegna þess að skilaboð hans í löngu vaxtahækkunarferli hafa verið misvísandi. Seðlabankastjóri verður að gera sér grein fyrir því að hann er ekki í vinsældakeppni. Hann verður að taka erfiðar ákvarðanir og vera maður til þess að gera það.

Seðlabankastjóri verður að átta sig á því að gagnrýni á ákvarðanir peningastefnunefndar bankans eru ekki persónulegar árásir á hann eða aðra í nefndinni.

Færa má góð rök fyrir því að miklar vaxtahækkanir Seðlabankans, sem enn sér engan veginn fyrir endann á, muni varanlega eyðileggja vaxtatæki bankans vegna þess að lántakar eiga í dag engan annan kost en að flýja í verðtryggð lán. Sést það enda á því að ný útlán eru öll verðtryggð. Vextir Seðlabankans hafa engin áhrif á verðtryggð lán og því er peningastefnunefnd bankans markvisst að úrelda sitt helsta tæki.

Í nágrannalöndum okkar er það almenn regla að vextir húsnæðislána séu fastir út lánstímann. Óþolandi þykir að þeir sem skuldsetja sig til að koma sér þaki yfir höfuðið búi við óvissu um greiðslubyrði sína. Þegar vextir hækka í Danmörku og Svíþjóð hækka vextir á nýjum lánum en ekki lánum sem þegar hafa verið tekin. Vaxtahækkun dregur úr eftirspurn eftir nýjum lánum án þess að setja drápsklyfjar á herðar þeim sem eru að borga af eldri lánum.

Í siðmenntuðu samfélagi er forsendum lántakenda ekki breytt eftir á. Að því leytinu til er Ísland ekki siðmenntað samfélag. Hér virðist peningastefna Seðlabankans ganga að miklu leyti út á að breyta, nei bylta, forsendum almennings í landinu.

Þessu þarf að breyta. Líklega er það ekki hægt fyrr en við köstum íslensku krónunni – gjaldmiðlinum sem efnuðustu Íslendingarnir og stærstu fyrirtæki landsins hafa fyrir löngu hafnað. Gjaldmiðlinum sem bara almenningur og minni fyrirtæki eru skikkuð til að nota.

Gott og vel, þá verðum við einfaldlega að losa okkur við krónuna og taka hér upp traustari gjaldmiðil. Þá fyrst sitja allir við sama borð hér á landi. Ekki nóg með það. Þá fyrst situr Ísland við sama borð og þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.