Nýverið er búið að samþykkja hjá Skaftárhreppi að veita leyfi fyrir Hnútuvirkjun sem mun raska hluta af Eldhrauninu. Þó að í náttúruverndarlögunum segi skýrt að staðir sem hér er um að ræða njóti sérstakrar verndar. En sveitarstjórnarmenn með peningaglampa í augunum virðast hafnir yfir slík lög.

Mikið er talað um að orkuskortur sé yfirvofandi á Íslandi og það þurfi að virkja meira, byggja fleiri vatnsaflsvirkjanir og setja upp vindmyllugarða út um allar trissur. Og það sé allt saman umhverfisvænt og orkan sem fengist með þessu sé „græn orka“.

En er það svo?

Með tilkomu vatnsvirkjana fer dýrmætt land undir uppistöðulón. Sveiflukennt vatnsyfirborð lónsins leiðir til leir- og sandfoks sem skemmir gróðurinn allt þar í kring. Við höfum séð mörg dæmi um þetta. Þó að vatnsaflsvirkjun sé „bara“ rennslisvirkjun fylgja slíkum framkvæmdum einnig talsverðar skemmdir.

Stórar vindmyllur þurfa traustar undirstöður. Þetta og lagning vega tengt þessu kallar á mikið jarðrask. Það þarf talsvert efni í vind­myllu­spaðana, framleiðsla þeirra og flutningur kosta örugglega mikla orku.

Mér skilst að við endurnýjun spaðanna verði gamla settið ekki endurunnið heldur urðað. Flutningur raforkunnar kallar á háspennulínur með tilheyrandi raski og sjónmengun.

Ásýnd landsins mun bíða hnekki með öllum þessum fyrirhuguðu virkjanaáformum. Við eigum hér ennþá stærstu og frekar lítt skemmd víðerni í Evrópu. Þetta eru svo ótrúlega mikil verðmæti sem verða ekki reiknuð í beinhörðum peningum. Við tölum hér um lífsgæði sem felast í upplifun, bæði okkar landsmanna og erlendra ferðamanna.

Snúum okkur nú að því hvort það þurfi í raun og veru að auka orkuöflun svona gríðarlega eins og margir vilja telja okkur trú um. Eins og stendur fara einungis um 18% til almennrar notkunar, um 5% er sóað og um 78% fara í stóriðju og aðra stórnotendur. Þetta má lesa í grein sem Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, skrifaði þann 17. mars í Kjarnanum.

Sérlega sorglegt er að mikið af orku fer í gagnaverin hér á landi sem sjá aðallega um uppgröft á rafmynt sem þjónar engum samfélagslegum tilgangi. Við gætum nýtt orkuna sem er nú þegar til staðar á annan og betri hátt. Við gætum stutt garðyrkjubændur með því að selja orkuna til þeirra á hagstæðari kjörum.

Þá gætum við neytendur fengið hollustufæði á betra verði og jafnvel væri inni í dæminu að flytja eitthvað af því út. Eftirspurn eftir hreinum og ómenguðum afurðum fer sífellt stækkandi. Nytjaskógrækt er alveg inni í dæminu til langs tíma litið og hefur um leið jákvæð áhrif á loftslagsmálin.

Við sjáum einmitt núna hvernig hráefnisverð rýkur upp með tilkomu stríðsins í Úkraínu. Efling á alls konar landbúnaði er auk þess mjög atvinnuskapandi.

Í gær tók ég stóra og mikla bók úr hillunni sem hefur verið þar lengi . Þetta stórbrotna verk heitir Hálendið í náttúru Íslands, er eftir Guðmund Pál Ólafsson heitinn og var gefið út árið 2000.

Mér er mjög minnisstætt þegar höfundurinn tók fallegu bókina sína nokkrum árum seinna og reif margar blaðsíður úr henni þar sem var fjallað um staði sem var búið að eyðileggja, flesta fyrir orkumannvirki í misgóðum tilgangi.

Ætlum við virkilega að halda áfram á þeirri braut?

Höfundur er kennari á eftirlaunum og náttúruvinur.