Vellíðan er mikilvægt huglægt einstaklingsbundið hugtak sem vekur með okkur þægilegar tilfinningar, að vera hamingjusöm og líða vel, hvort sem erum með e-a sjúkdóma, fatlanir eða ekki. Vellíðan felst í því að upplifa að við ráðum við þær áskoranir sem við tökumst á við í daglegu lífi og að halda jafnvægi á milli þeirra ólíku hlutverka sem við gegnum. Rannsóknir sýna að jafnvel lítilsháttar aukning á vellíðan getur átt þátt í að draga úr sumum geðrænum vandamálum og hjálpað fólki að blómstra í lífinu.

Jákvæð heilsa (positive health) er nýleg heildræn skilgreining á heilsu; Heilsa er getan til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu. Skilgreiningin, og hugmyndafræðin að baki henni, er runnin frá hollenskum heimspekingi og sérfræðingi í heimilislækningum, Machtelt Huber, í kjölfar rannsókna hennar á heilsu. Samkvæmt Huber snýr heilsa og heilbrigði að lífinu í heild sinni en ekki að því hvort þú sért með e-n sjúkdóm eða fötlun. Huber mælir með því að við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga: Hvað get ég gert til þess að styrkja mig á jákvæðan hátt? Hvernig getur mér liðið sem best þrátt fyrir….? Nálgunin snýst um þína þátttöku í lífinu, daglega og líkamlega virkni, andlega vellíðan, tilgang og lífsgæði þín. Mikilvægt er að sýna þrautseigju og að vera við stjórnvölinn, þar sem þú mögulega getur. Jákvæð viðhorf til þín og annarra og félagslegt umhverfi þitt og þátttaka í því skipta líka miklu máli.

Jákvæð sálfræði rannsakar hvað eykur vellíðan okkar og hamingju. Hún einblínir á styrkleika fólks frekar en veikleika, án þess þó að útiloka erfiðleika og þjáningu, og skoðar alla þætti mannlegrar upplifunar. Martin Seligman, faðir fræðigreinarinnar, hefur vakið athygli á því að sálfræðin hafi allt frá heimsstyrjöldinni síðari vanrækt að rannsaka það sem gerði lífið gott og væri þess virði að lifa því en hefði þess í stað einblínt á erfiðleika og sjúkdóma og miðað allt út frá því. Jákvæða sálfræðin minnir á mikilvægi þess að tileinka sér ýmis jákvæð inngrip til að auka vellíðan og hamingju en gagnsemi þeirra hefur verið staðfest á síðustu árum með rannsóknum. Dæmi um slík inngrip eru; þakklæti, upprifjun jákvæðra atburða, ritun um erfiða eða jákvæða reynslu, mynda tengsl og gefa af okkur, greina og þjálfa upp eigin styrkleika, þjálfa núvitund (mindfulness) og samkennd (compassion), hreyfa sig og halda áfram að vaxa með því að læra e-ð nýtt.

Hjúkrunarfræðin hefur frá upphafi horft á einstaklinginn á heildrænan máta og hjúkrað honum út frá; líkamlegum, sálrænum, andlegum (tilvist/trú) og félagslegum þáttum hans. Það sama gildir um nálgun samþættra meðferða, bæði hugar og líkama (sem notaðar eru til viðbótar við hefðbundnar meðferðir - og hafa sýnt gagnsemi með rannsóknum) s.s. nudd, slökun, líkamsþjálfun, næringarráðgjöf, núvitund, hugræna atferlismeðferð o.fl. Samþættar meðferðir hafa öðlast sífellt stærri sess sem forvarnargildi á síðustu árum meðfram hefðbundinni heilbrigðisþjónustu, bæði við sjálfsumönnun (self-care) og við heilsueflingu einstaklinga.

Viljum við ekki öll að horft sé á okkur sem einstaklinga á heildrænan máta, líka út frá styrkleikum okkar og því sem veitir okkur vellíðan? Í stað þess að við séum metin einungis út frá okkar annmörkum; verkjunum, krabbameininu, kvíðanum, þunglyndinu, fötluninni o.sv.frv., sem er því miður samt of oft raunin, sérstaklega í þeim hraða og streitu sem ríkir innan heilbrigðiskerfisins sem og í samfélagi nútímans.

Ofantalið sýnir að skilgreiningar og hugmyndafræði; jákvæðrar heilsu, jákvæðar sálfræði, hjúkrunar og samþættra meðferða fara mjög vel saman og gagnast vel einstaklingum til þess að auka vellíðan sína og lífsgæði.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) var fyrst heilbrigðisstofnana til að innleiða leiðir jákvæðrar heilsu hér á landi og Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins er byrjuð að kynna sér nálgun hennar. Vonandi munu fleiri heilbrigðisstofnanir fara að þeirra fordæmi sem allra fyrst okkur öllum til farsældar.

Við nöfnurnar, sem höfum unnið sem hjúkrunarfræðingar s.l. 25 ár, höfum nýverið sett saman námskeið hjá Endurmenntun HÍ (Jákvæð heilsa - að takast á við áskoranir daglegs lífs) þar sem ofangreindar skilgreiningar og hugmyndafræði þeirra eru hafðar að leiðarljósi. Markmið námskeiðsins er að aðstoða þátttakendur við að auka eigin jákvæðu heilsu; vellíðan, valdeflingu, þrautseigju, tilgang og stjórn til að takast betur á við daglegt líf og draga þannig úr streitu. Áhersla er lögð á mikilvægan grunn heilsu; jafnvægi á milli virkni, hvíldar, svefns og næringar.

Rannveig Björk Gylfadóttir og Rannveig Eir Helgadóttir eru hjúkrunarfræðingar á Landspítala, með ýmis konar viðbótarnám bæði í hjúkrun (krabbameins- og geðhjúkrun) og í samþættum meðferðum (m.a. jákvæðri sálfræði, hugrænni atferlismeðferð, næringarráðgjöf, núvitund o.fl.).

www.landlaeknir.is

www.endurmenntun.is

www.velvirk.is