Endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefur með réttu leitt til umræðu um ákvæðin um kosningar til Alþingis. Margir hafa furðað sig á því að örfáir tugir atkvæða til eða frá í kjördæminu skuli hafa valdið því að fimm þingsæti fóru á flakk. Breytingin snertir þó einvörðungu niðurröðun jöfnunarsæta á kjördæmislista flokkanna. Kjördæmissætin haldast óbreytt svo og skipting jöfnunarsæta milli flokka.

Vitaskuld getur það einatt oltið á einu atkvæði hvort sætaskipan breytist. Það gerist í öllum kosningum og undir hvaða kerfum sem er. En spurningar vakna þegar þetta hreyfir við tíu þingsætum. Raunar hefði sama runa af sætaskiptum farið af stað við það eitt að atkvæðum Viðreisnar hefði fækkað um tvö í seinni talningunni í kjördæminu.

Þessari grein er ætlað að varpa ljósi á hvernig útkoman varð þessi. Í framhaldsgrein verður fjallað um það hvort betur megi gera.

Hver er tilgangur jöfnunarsæta?

Svarið stendur í gildandi stjórnarskrá: „[Jöfnunarsætum] skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka [þ.e. flokka] þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“ Þetta hefur verið markmiðið allt frá því að slík ákvæði tóku gildi 1934, en áður hafði verið hróplegt misvægi milli landsfylgis flokka og þingmannatölu þeirra. Tala jöfnunarsæta hefur þó alltaf verið skorin við nögl þannig að markmiðið um fulla jöfnun milli flokka náðist fyrst 1987, en frá og með 2013 hefur það ekki náðst aftur. Að stórum hluta er misvægið sem leiðrétta þarf með jöfnunarsætunum því að kenna að þingsætum er ekki skipt hlutfallslega á milli kjördæmanna. En fleira kemur til sem ekki er tóm til að rekja hér.

Úthlutun jöfnunarsæta eftir gildandi lögum

Til þess að skýra það sem gerðist verður að rifja upp hvernig jöfnunarsætum er útdeilt á kjördæmislista flokka. Um þetta fjallar 108. gr. kosningalaga nr. 24/2000. Efnislega segir lagagreinin að jöfnunarsætunum skuli skipt á milli þeirra flokka sem komast yfir 5%-þröskuld í landsfylgi og að teknu tilliti til þeirra kjördæmissæta sem þeir eru búnir að fá. Aðferðin við þessa skiptingu byggir eins og úthlutun kjördæmissætanna á svonefndri D'Hondt-reglu sem hefur verið notuð í þessu skyni allt frá 1934. Þá situr eftir það skref sem hefur ávallt reynst örðugast: Að finna jöfnunarsætum hvers flokks stað í kjördæmunum. Þá þarf bæði að láta hvern flokk fá sinn sætafjölda, og sömuleiðis hvert kjördæmi, en í lögunum er niðurneglt að hvert kjördæmanna á höfuðborgarsvæðinu fái tvö sæti en hin eitt, eða níu alls.

Með gildandi lögum varð breyting á fyrri reglum um hvernig jöfnunarsætunum skyldi útdeilt. Byrjað er á að reikna svonefndar landstölur fyrir hvert jöfnunarsæti sem úthluta skal. Þær endurspegla á vissan hátt sanngjarna forgangsröð flokkanna að sínum jöfnunarsætum, eins og útskýrt verður hér á eftir. Fyrsta jöfnunarsætið fær sá flokkur sem hæsta hefur landstöluna og fer það í kjördæmið þar sem næsti maður á lista hans hefur hæst hlutfall atkvæða. Síðan er gengið á næsthæstu landstöluna og þannig koll af kolli.

Úthlutun jöfnunarsæta eftir kosningarnar nú

Eins og fyrr segir breyttist úthlutun kjördæmasætanna 54 ekkert milli talninga, til þess var atkvæðabreytingin of lítil. Jafnframt breyttist fjöldi jöfnunarsæta sem hver flokkur fékk í sinn hlut ekkert. Bæði fyrir og eftir endurtalninguna áttu fimm flokkar rétt á jöfnunarsætum, Viðreisn (2), Miðflokkur (2), Píratar (3), Samfylking (1) og Vinstri græn (2).

Eins og fyrr segir kemur tvennt við sögu þegar jöfnunarsætunum er komið til síns heima, til kjördæmislistanna: Annars vegar fyrrnefndar landstölur og hins vegar atkvæðahlutfall næsta manns í hverju kjördæmi. Þessar tölur eru sýndar í meðfylgjandi töflu.

Landstölurnar eru reiknaðar út sem atkvæði að baki næsta sætis hvers viðkomandi flokks miðað við landsfylgi, þ.e. eins og landið væri eitt kjördæmi. Þá er að sjálfsögðu tekið tillit til þeirra þingmanna sem flokkarnir eru þegar búnir að fá kjördæmiskjörna. Til dæmis er fyrsta landstala Pírata fundin svo: Þeir hlutu 17.233 atkvæði á landinu öllu í fyrri talningunni og fengu þrjú kjördæmissæti. Fyrsta landstala þeirra reiknast skv. D‘Hondt-reglu vera 17.233/(3+1) = 4.309, eins og fram kemur í töflunni. Þetta er hæsta landstalan, fyrir og eftir endurtalninguna. Þeir eiga því fyrstir tilkall til þess að sæti þeirra sé fundið pláss í kjördæmi. Valið ræðst af því hvar næsti maður Pírata hefur hæst hlutfall atkvæða, 6,42%. Það er í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir og eftir endurtalningu.

Þá er komið að ráðstöfun annars jöfnunarsætisins. Fyrir og eftir endurtalninguna er næsthæsta landstalan hjá C, Viðreisn. Fyrir endurtalningu var hæsta hlutfallstala næsta manns hjá þeim flokki í Norðvesturkjördæmi, hlutfallið 6,22%. Hvernig er sú tala fundin? Skv. fyrri talningunni fékk listinn 1.063 atkvæði af 17.251 í kjördæminu. Listinn fékk ekki kjördæmiskjörinn mann og því reiknast atkvæðahlutfall efsta manns listans 1.063/17.251 = 6,22%. Við endurtalninguna lækkaði C-listinn í Norðvesturkjördæmi örlítið, eða í 6,16% (sem sést þó ekki í töflunni), en nóg til þess að vera komið niður fyrir hlutfall C í Suðurkjördæmi sem var og varð 6,21%. Samkvæmt ákvæðum kosningalaganna skal því sætið færast þangað eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Miðflokkurinn á þriðju hæstu landstöluna. Svo vill til að hæsta hlutfall næsta manns á listum flokksins er einmitt í þessu sama kjördæmi. En eftir fyrri talninguna var kjördæmið „uppselt“; C-listinn búinn að fá eina jöfnunarsæti kjördæmisins. Sæti Miðflokksins varð því að sækja á önnur mið; í Suðvesturkjördæmið þar sem maður M-listans var næsthæstur að hlutfalli til meðal lista flokksins. Við endurtalninguna breyttust forsendur. Þá varð Norðvesturkjördæmið laust og þangað fór því Miðflokkssætið út á hlutfallið 7,41%. Ef svo vel hefði viljað til að þetta sæti hefði í fyrri talningunni verið í Suðurkjördæminu, ekki því Suðvestra, hefði hringurinn lokast. Færsla sætis C-listans, sem orsakaðist í raun af missi tveggja atkvæða í Norðvestri, hefði þá dregið minnstan dilk á eftir sér, þ.e. skiptum C og M á jöfnunarsætum í Norðvestur- og Suðurkjördæmi. En þessu er því miður ekki að heilsa. Hringekjan hélt því áfram eins og rakið er á myndinni.

Eru lögin gölluð?

Eðlilega er spurt hvort eitthvað sé bogið við gildandi úthlutunarkerfi sem getur leitt til þessara sviptinga vegna örfárra atkvæða. Reiknitilraunir með sérstökum hugbúnaði sem kynntur verður bráðlega sýna að önnur kerfi hefðu valdið minni röskun að þessu sinni, en það gæti vel verið tilviljun. Til að skera úr því þarf að gera frekari rannsóknir.

Stutt svar við spurningunni er á hinn bóginn bæði nei og já!

„Nei“, þar sem hlutfallskosningakerfi getur aldrei verið gallalaust þegar í senn er keppt að því að sætum sé rétt skipt á milli flokka miðað við landsfylgi en að um leið fái kjördæmin sín sæti og engar refjar. „Já“, vegna þess að núgildandi kerfi má bæta á ýmsan hátt án þess að kollvarpa því. Þar togast reyndar á að kerfið sé einfalt og auðskiljanlegt og hitt að það uppfylli sem flestar sanngirniskröfur.

Ekkert kosningakerfi er fullkomið, en gera má vissar gæðakröfur til aðferða við útdeilingu jöfnunarsæta. Til dæmis þá að listi megi aldrei missa sæti við það eitt að bæta við sig atkvæðum. Eða að breyting á atkvæðum einhvers lista, sem hafi þó engin áhrif á úthlutun til hans, megi ekki valda því að sæti annarra lista fari á kreik. Ætli flestum þyki þetta ekki sjálfsagðar kröfur. Sanna má stærðfræðilega að aðeins ein tegund útdeilingaraðferða uppfyllir þessar gæðakröfur. Hví eru þær þá ekki notaðar? Ástæðan er að sem lagatexti þykir aðferðin of flókin, enda þó stærðfræðilega sé hún í raun einföld!

Eitt er jákvætt við uppákomuna við talninguna í Borgarnesi. Umræða um lýðræðismál hefur lifnað við.

Kristján Jónasson, prófessor

Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor