Nú líður að því að gas- og jarð­gerðar­stöðin í Álfs­nesi komist í gagnið. Því ber að fagna enda er það mjög í þágu um­hverfisins að búa til nýtan­leg efni úr af­göngum og rusli.

Metan er mjög öflug gróður­húsa­loft­tegund, marg­falt verri en kol­díoxíð og slæmt ef það sleppur út í and­rúms­loftið. Þetta gas verður til þegar líf­rænt efni brotnar niður í loft­firrtu (súr­efnis­lausu) um­hverfi eins og í mýrum og á ösku­haugum. Það er hægt að vinna metan af sorp­haugum og nýta sem elds­neyti. Þetta efni er til staðar þarna. En eins og stendur verður mest af metaninu sem er unnið í Sorpu brennt, til að minnka slæmu á­hrifin. Heimsku­legt? Mér finnst það. Menn eru að leita ljósum logum að öðrum orku­gjöfum en jarð­elds­neyti, gera alls konar til­raunir, til dæmis með þang, repju og fleira en eyða svo metaninu í staðinn fyrir að nota það. Hvernig verður það þegar nýja gas­gerðar­stöðin í Sorpu tekur til starfa? Ætti nú ekki að stefna að því að nota metanið í auknum mæli?

Það eru einungis fáir metan­bílar (tæp 1900) á götum hér á landi. Allir eru að fókusera á raf­magns­bíla sem eru kannski ekki alveg eins um­hverfis­vænir og gefið er í skyn. Það þarf jú að fram­leiða raf­magnið og jafn­vel hér á landi kostar það sitt: Til að búa til raf­magn er verið að eyði­leggja stór land­svæði og skemma náttúru­perlur á ó­aftur­kræfan hátt með vatns­afls­virkjunum og jarð­varma­orku­ver menga líka. Metan verður hins vegar til úr rusli og þarf ekki að fram­leiða. Metan­bílar eru ó­dýrari í fram­leiðslu og minni vand­ræði að farga þeim heldur en raf­magns­bílum. Raf­hlöður þeirra inni­halda mikið af mengandi efnum. Þannig að maður skilur ekki alveg hvers vegna metan­bílum er ekki gert hærra undir höfði og menn ekki hvattir til að snúa sér að slíkum farar­tækjum. En í staðinn var bónusinn tekinn af metan­bílum og þeir eru ekki lengur til­greindir sem vist­vænir. Þannig að metan-tvinn­bílar fá ekki lengur ó­keypis bíla­stæði í Reykja­vík. Þessu var breytt um ára­mót og rök­stuðningurinn sá að metan-tvinn­bílar gætu jú líka notað bensín. En engum heil­vita manni myndi detta í hug að nota bensín þegar metan er í boði, enda tals­vert ó­dýrara elds­neyti.

Við hjónin festum kaup á metant­vinn­bíl síðast­liðið sumar og höfum frá því ekki notað dropa af bensíni því metan er jú tals­vert ó­dýrara. Bensín í tankinum er einungis til að nota í neyð. Það eru nefni­lega bara fimm metan­stöðvar á landinu, fjórar í Reykja­vík og ein á Akur­eyri, þannig að í lengri ferðum gæti maður lent í vand­ræðum.

Ég vildi sjá breyttar reglur sem hvetja til að nota farar­tæki sem ganga fyrir metani. Það yrði í þágu um­hverfisins.