Ein grunnstoð lýðræðisins er traust. Traust manna á millum. Traust til stofnana. Traust til dómsvaldsins. Traust í samfélaginu.Við kjósum okkur fulltrúa og treystum því að þau muni (að mestu) taka ákvarðanir sem eru í okkar þágu og við erum sammála.

Flestir telja að spilling sé ekki mikil, leikreglurnar séu skýrar og að oftast sé fólk bara að reyna að gera sitt besta.Á öllum Vesturlöndum hefur traust í samfélaginu og til stjórnmálanna dvínað á undanförnum áratugum. Afleiðingarnar eru hatrammari stjórnmál og aukinn klofningur.

„Óvinum“ er stillt upp hverjum gegn öðrum og talað við samherja og til óvinahópa í stað þess að tala við hvert annað.Þróunin hefur ekki verið jafnbrött á Íslandi. Traustið, bæði til stjórnmálanna og innan samfélagsins, hefur hér verið ríkara. Þátttaka í kosningum er einna mest hér á landi. En allt er í heiminum hverfult.

Síðustu kosningar hafa leitt af sér tvíþætt högg á traust almennings á lýðræðinu og stjórnmálum. Annað, og veigaminna, kom frá stjórnmálunum sjálfum þegar stjórnmálamaður ákvað að skipta um stjórnmálaflokk án þess að geta vísað til nokkurs ágreinings eða forsendubrests frá því hann var kjörinn fyrir hinn flokkinn.

Síðara höggið kom frá kerfinu sjálfu, þegar kom í ljós að stofnunin sem átti að tryggja farsæla framkvæmd á sjálfum kosningunum, var ekki að passa upp á sjálf atkvæðin.

Mikilvægasta verkefnið fram undan er því að hefja okkur upp yfir dægurþrasið og endurreisa það traust. Hinn kosturinn er að halda áfram að grafa undan trausti í samfélaginu með þeim áhrifum sem það hefur á lýðræðið okkar og samfélag.