Fyrir nokkrum árum fór ég með drengina mína í Sundlaug Akureyrar. Það var hávetur og niðamyrkur úti. Þó að drengirnir væru ungir að árum þurfti ég að senda þá í karlaklefann, sem mér þótti ægilega erfitt því við þekktum ekki til laugarinnar.

Í sturtuklefanum byrjaði ég eins og aðrar ímyndunarveikar mæður að spinna í huganum söguþráð með hræðilegum endi: Drengirnir yrðu á undan mér út í laug og búnir að fara sér að voða á meðan ég skylfi á bakkanum skimandi eftir þeim. Þrír guttar saman eru til alls líklegir.

Í miðju ímyndunarkasti skima ég eftir útgönguleið, en sé bara veggi. Þá tek ég eftir konu í næstu sturtu sem er að gera sig klára – hún lítur út fyrir að rata út. Þegar konan tekur á rás ákveð ég að elta hana á meðan ég gyrði upp um mig sundbolinn. Eftir nokkur fótspor staðnæmist konan. Ég lít upp og sé hvernig hún horfir á mig gapandi. Ég hafði elt hana inn á einstaklingssalerni.

Nú styttist í alþingiskosningar og eflaust einhverjir sem elta „sinn flokk“ sama hvert hann leiðir. Þá velti ég fyrir mér hvaða gildum leiðtogi lýtur. Mér eru heilbrigðismál ofarlega í huga. Síðasta árið náðu heilbrigðisyfirvöld að klúðra einni mikilvægustu heilbrigðisþjónustu landsins, sem er skimun krabbameina, á sama tíma og þau komu ágætis böndum á skæðan faraldur. En mitt í ringulreiðinni eru fáir sem kæra sig um velferð ungdómsins, sem endurspeglast í að fíkniefnið nikótín hefur fengið að flæða óheft um skólalóðir og áfengi er gert að hálfgerðri nauðsynjavöru. Forvarnamál barna og unglinga virðast alltaf lenda neðst í skúffunni.

Því spyr ég: Hvar finn ég leiðtoga sem leggur sig fram við forvarnamál … ekki til að elta inn á salerni, heldur til að gefa atkvæði mitt?