Hinn 26. fyrra mánaðar samþykkti skilavald Seðlabanka Íslands svonefndar skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvægu bankana á Íslandi: Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Með þessum skilaáætlunum hefur Seðlabankinn búið í haginn fyrir þjóðarbúið komi til verulegra erfiðleika í rekstri bankanna. Skilaáætlanirnar skapa grundvöll fyrir því að hægt verði að endurreisa fallandi banka hratt og örugglega, án þess að til komi opinber fjárstuðningur frá ríkissjóði eða Seðlabankanum. Þá fela skilaáætlanirnar í sér að þrátt fyrir fall kerfislega mikilvægs banka muni almenningur og fyrirtæki áfram hafa óheftan aðgang að nauðsynlegri starfsemi banka og styðja áætlanirnar með því við fjármálastöðugleika í landinu.

Snurðulaus framkvæmd og minni óvissa

Samþykkt skilaáætlana fyrir kerfislega mikilvægu bankana þrjá markar ákveðin þáttaskil í endurmótun rekstrarumhverfis þeirra eftir alþjóðlegu fjármálakrísuna 2007-2009. Með stofnun skilavalds haustið 2020 hefur Seðlabankanum verið fengið vald til að taka ákvarðanir um endurreisn fallins banka, sem leiðir til hraðari framkvæmdar við endurreisnina en var árin eftir alþjóðlegu fjármálakrísuna. Skilaáætlanir geta við sambærilegar aðstæður og þá komu upp minnkað óvissu og gert framkvæmd skilameðferðar eins snurðulausa og kostur er.

Skilaáætlanir eru hluti af evrópsku regluverki (BRRD) sem einnig fjallar um skyldur banka til að semja ítarlegar endurbótaáætlanir til að geta brugðist við rekstrarvanda. Af öðrum endurbótum sem orðið hafa á bankamarkaði síðasta áratug mætti nefna auknar kröfur um eigið fé banka (eiginfjáraukar), kröfur um lausafjárhlutföll og fjármögnunarhlutföll. Allar framangreindar endurbætur hafa verið hluti af viðamiklu breytingaferli fyrir banka hér heima og erlendis sem miðar að því að þeir verði betur í stakk búnir en áður til að bregðast við áföllum í rekstri.

Samhliða samþykkt skilaáætlananna tók Seðlabankinn ákvarðanir um fjármagnssamsetningu eða heildarfjármagnskröfur (MREL e. minimum requirements for own funds and eligible liabilities) fyrir kerfislega mikilvægu bankana. Slíkar MREL-kröfur fela í sér lágmarkskröfur varðandi fjármagn, þ.e. eigið fé og skuldir, bankanna til að styðja við þær aðgerðir sem fram koma í skilaáætlununum. Kröfunum er því ætlað að tryggja að hægt verði að endurreisa fallandi banka. Vert er að taka fram að bankarnir þrír teljast allir uppfylla þær MREL-kröfur sem gerðar eru til hvers og eins þeirra.

Ítarleg greining á starfsemi hvers banka

Skilaáætlanirnar byggja á ítarlegri greiningu á starfsemi hvers banka fyrir sig og í þeim ber skilavaldi að leggja rökstutt mat á hvaða leið er æskilegust til að endurreisa fallandi banka. Í einfölduðu máli eru þær leiðir sem eru heppilegastar tíundaðar í áætluninni og styrk hverrar lýst, en jafnframt lagt mat á aðrar leiðir með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Í skilaáætlunum skal fjallað bæði um sviðsmynd þar sem banki fellur einn og sér og sviðsmynd þar sem margir bankar falla samtímis vegna óstöðugleika á fjármálamörkuðum eða kerfislegs ójafnvægis.

Almennt má segja að þær leiðir sem hægt er að fara til að endurreisa fallinn banka séu af tvennum toga: Að beita eftirgjöf (e. Bail-in) vegna skulda viðkomandi banka eða að gera ráðstafanir vegna eigna hans. Eftirgjöf felur í sér að hlutafé fallins banka er fært niður eða afskrifað og ákveðnum skuldum hans breytt í nýtt hlutafé. Bankinn hefur þar með minnkað skuldir og endurreist efnahag og nýir eigendur tekið við rekstri hans.

Öflugra kerfi til að bregðast við áföllum í rekstri banka

Stofnun skilavalds innan Seðlabankans gerir það að verkum að viðbúnaður til að bregðast við áföllum í rekstri banka hér á landi samanstendur nú af tveimur stoðum til viðbótar við öflugt kerfi til að vakta og gera kröfur til eigin fjár banka. Önnur af þessum stoðum er innstæðutryggingakerfið sem er við lýði hér á landi en Tryggingarsjóður innstæðueigenda tryggir innstæðueigendur fyrir allt að jafngildi 100 þúsund evra í íslenskum krónum. Hin stoðin verður skilavaldið sem mun gera það að verkum að ef í óefni stefndi yrði hægt að bregðast við með skjótvirkum hætti til að endurreisa fallinn banka.

Með samþykkt skilaáætlana bankanna þriggja er stigið ákveðið skref til að tryggja bætta umgjörð bankareksturs og þar með styðja við fjármálastöðugleika í landinu. Markmiðið er einnig að lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og viðskiptavini, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði. n

Nánari upplýsingar um starfsemi skilavaldsins og skilameðferð banka má finna á vef Seðlabankans (sedlabanki.is).