Öll höfum við staðið í þeim sporum að ætla að taka okkur á, fara að hugsa betur um líkamann, taka mataræðið í gegn eða kannski bara setjum við okkur það markmið að ætla að heimsækja ömmu oftar.

Svo getur verið ansi misjafnt hvernig okkur gengur að standa við þessi markmið, þeir sem eru með járnvilja eiga hvorki í vandræðum með að taka út hvítan sykur né taka æfingu kl. 5.50 að nóttu til en ansi margir þurfa stuðning til að ná að halda sig á brautinni að markmiðinu. Þessi stuðningur getur verið á margan máta, hægt er að fá sér næringarfræðing eða einkaþjálfara sem þú hittir, hægt er að kaupa fjarþjálfun eða aðstoð frá aðilum eins og þessum eða bara ná sér í app sem segir þér hvað þú þarft að gera hverju sinni. Í raun er mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverjum eftir því hversu agaður hver og einn er, járnviljinn neglir þetta án aðstoðar en þeir sem eru góðir við sig þurfa að hitta alla þessa aðila í raunheimum og helst af hafa vin eða vinkonu með til andlegs stuðnings. Við erum nú öll þannig að við höfum tilhneigingu til að gera það sem okkur þykir gott, þægilegt og skemmtilegt en fresta öðrum hlutum. Ég þekki fáa sem fara til tannlæknis sér til skemmtunar.

Öll vitum við að í farsælum fyrirtækjarekstri þurfa ýmsir þættir að fara saman, ekkert er hægt að gera án tekna og hagnaðar en ákveðin gæði og stöðlun á því hvernig hlutirnir eru unnir eru einnig nauðsynleg. Mín reynsla er sú að stjórnendur fyrirtækja hafa, eðlilega, meiri áhuga á því að skapa tekjur og hagnað heldur en að baða sig í stöðlun verkferla og gerð gæðaskjala en þeir hins vegar verða einnig að sinna þeim verkefnum að einhverju marki. Hvaða aðilar eru það sem veita stjórnendum aðhald þannig að þeir sinna ekki eingöngu verkefnum sem þeim finnast skemmtileg heldur einnig hinu verkefnunum? Það fyrsta sem manni dettur í hug eru aðrir stjórnendur, ef til vill forstjóri eða stjórn rekstrareiningarinnar og svo eru mörg fyrirtæki með endurskoðaða ársreikninga og því fylgir ákveðinn agi og aðhald.

Ýmsar aðrar einingar veita stjórnendum aðhald og í fjármálafyrirtækjum má finna eftirlitseiningar eins og regluvörslu, áhættustýringu og innri endurskoðun. Þó svo verkefni þessara eininga séu mismunandi þá eiga þessar einingar það sameiginlegt að þær passa upp á að stjórnendur geri líka það sem þá langar kannski ekki mest af öllu að gera. Því má segja að eftirlitseiningar hverrar og einnar rekstrareiningar séu ef til vill dálítið líkar einkaþjálfurum sem aðstoða reksturinn í leið hans að markmiðinu. Verkefni sumra þessara eftirlitseininga er hægt að útvista og þá er kannski komið í svipað kerfi og fjar-einkaþjálfun. Munurinn á inn- og úthýsingu þessara verkefna er í grunninn svipaður og munurinn á fjarþjálfun og einkaþjálfun og liggur í því að það fylgir meiri agi því að innhýsa eftirlitshlutverkum. Reyndar hef ég ekki séð app sem kemur í stað innri endurskoðunar og regluvörslu en það má örugglega þróa það.

Innri endurskoðunardagurinn verður haldinn þann 28. apríl næstkomandi. Dagurinn verður haldinn í formi fjarráðstefnu vegna gildandi samkomutakmarkana. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar og skráningarform má finna á vefsíðu Félags innri endurskoðenda, www.fie.is.