Íslendingar þekkja vandann sem stafar af áfengis- og vímuefnafíkn. Þeir hafa sýnt það með stuðningi við SÁÁ ár eftir ár, að vilji er fyrir meiri þjónustu vegna þessa alvarlega sjúkdóms.

Fíknsjúkdómur hefur afleiðingar sem koma við fjölskyldu og samfélagið allt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, gerir vel grein fyrir alvarleikanum og hversu mikil áhrif neysla áfengis og annarra vímuefna hefur, á samfélög og heilsu einstaklinga, sjúkdóma og slys. Sjúkdómurinn áfengisfíkn er metinn hrjá 14,6% karla í Evrópu samkvæmt WHO. Árleg dauðsföll í heiminum vegna áfengisdrykkju eru talin þrjár milljónir og hálf milljón vegna annarrar vímuefnaneyslu, auk þess eru 7.3 milljónir dauðsfalla árlega vegna tóbaksreykinga. Síðustu 30 ár hafa reykingar, áfengisneysla og vímuefnaneysla skriðið ofar og ofar á lista yfir áhrifamestu áhættuþætti fyrir sjúkdóma og slys og sjúkdómsbyrði/DALYs í heiminum og eru þar í efstu sætum, sérstaklega fyrir aldurinn 25-49 ára. (DALYs = Disability Adjusted Life Years, The sum of years of potential life lost due to premature mortality and the years of product­ive life lost due to disability).

Þessar tölur skipta máli fyrir stjórnvöld þegar þau taka ákvarðanir um skiptingu fjár til heilbrigðisþjónustu og forvarna. Þau þurfa að hafa athygli á meginþættina og stóru myndina. Þau þurfa að meta kostnaðarhagkvæmni.

Þetta eru stórar tölur og í stóru samhengi. Við þurfum ekki stórar tölur og stórt samhengi þegar við lítum okkur nær. Fíknsjúkdómurinn er nálægur flestum heimilum og hérlendis veit almenningur að það er ástæða til að grípa inn í, það er hægt að fyrirbyggja og það er hægt að meðhöndla og það er hægt að minnka skaða.

Þess vegna leggur almenningur SÁÁ lið, til að geta gert meira en yfirvöld gera samning um, meiri heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm og aðstandendur þess.

Það er enn svo, að stór hluti af heilbrigðisþjónustu sem SÁÁ veitir, er greiddur af frjálsum framlögum og styrkjum. Sá hluti þjónustunnar er því viðkvæmur, háður framlögum almennings. Við sjáum engan hluta þjónustunnar sem vit væri í að sleppa, þvert á móti er þörf fyrir miklu meira en samtökin hafa getað gert í mörg undanfarin ár. Það er ömurlegt að geta ekki veitt þjónustu þegar hennar er þörf og óskað. Árið 2020 er sérstakt og ekki dæmigert. Þrengingar og fyrirmæli vegna almannahagsmuna hafa skert þjónustuna eins og víðast. Hvernig verður 2021? Við, eins og fleiri, höfum áhyggjur af því að þörfin verði meiri á inngripi og meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn á komandi misserum. Við þurfum að standa vaktina og gera okkar besta til að hafa aðgengi að þjónustu. Til þess þarf enn þá skilning og framlag almennings á Íslandi.

Takk ævinlega fyrir skilninginn og stuðninginn.