Hversu styrkum fótum stendur lýðræðið? Þessi spurning leitar mjög á menn og konur hér á Spáni um þessar mundir og sýnist sitt hverjum. Sumir segja þetta brauðfætur og tína til að hér sitja sjálfstæðissinnar, sem efndu til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu, bak við lás og slá og að erfiðlega reynist að ná lögum yfir gamla kónginn þó fjármálahneykslin nái honum upp að höku meðan rappari situr í fangelsi fyrir lögin sín. Reyndar er það meira en leirburðurinn sem kemur söngvaskáldi því í klandur því hann hefur einnig ráðist á blaðamann.

En það sem vekur enn meiri ugg eru spurningar rithöfundarins Cristina Martín Jiménez sem spyr: Hverjir eru það sem taka ákvarðanirnar á örlagastundu? Hver tekur í tauminn þegar upplausn virðist í uppsiglingu? Svar hennar er á þá leið að Bildenberg klúbburinn hafi ráðið meiru um örlög Spánar en sjálf yfirvöld. Samt fer engum fréttum af klúbbi þessum meðan stjórnmálamenn berjast í leðjuslag frammi fyrir kastljósi heimsins. Hann réði því hver varð konungur eftir að Franco geispaði golunni og hvenær hann svo stígi til hliðar, sambandi landsins við Bandaríkin, inngöngu þess í Evrópusambandið og neyðarláninu sem notað var til að lífga bankana við eftir kreppu, svo dæmi séu tekin. Allt þetta var ákveðið af mönnum sem enginn hafði kosið.

Hverju sem fólk trúir tel ég það hollt að velta þessu fyrir sér nú þegar næsta verkefni er að rétta efnahag þjóða heimsins við. Á hvaða herðum standa hjálparhendurnar og af hverju vex alltaf ójöfnuðurinn þegar þær koma til sögunnar?