Fyrsta kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands lýkur nú í sumar. Enn sem komið er hefur enginn stigið fram og lýst yfir mótframboði en frestur til þess rennur út síðari hluta maímánaðar. Það er því enn nægur tími til stefnu en sjálfur tilkynnti Guðni um sitt framboð í byrjun maí fyrir fjórum árum.

Ný könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið er ekki beint til þess fallin að hvetja mögulega mótframbjóðendur til dáða. Samkvæmt könnuninni eru 80 prósent landsmanna ánægð með störf Guðna sem forseta Íslands, þar af eru 57 prósent mjög ánægð. Aðeins um 6,5 prósent eru óánægð með Guðna.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við mælingar sem MMR hefur gert. Strax við embættistöku fyrir fjórum árum mældist ánægja með störf Guðna tæp 70 prósent. Slíkar tölur sáust aldrei hjá forvera hans á Bessastöðum. Ánægja með störf Guðna fór síðan vaxandi og hefur síðustu þrjú árin verið á bilinu 75 til 85 prósent.

Guðni nýtur mikils trausts hjá nánast öllum hópum þjóðfélagsins. Þannig mælist ánægja með störf hans 70 prósent eða meira bæði hjá körlum og konum, hjá öllum aldurshópum og hjá íbúum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það sama má segja um mismunandi tekjuhópa og greint eftir menntun.

Eini hópurinn sem virðist óánægður með störf forsetans er stuðningsfólk Miðflokksins. Þar eru 37 prósent óánægð en 34 prósent ánægð. Hér er freistandi að draga þá ályktun að Miðflokksfólk sé ósátt við að Guðni hafi ekki vísað þriðja orkupakkanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt hefði að vísu ekki verið mögulegt samkvæmt stjórnarskrá þar sem um þingsályktun var að ræða en ekki lög frá Alþingi.

Almenningur á Íslandi vantreystir allt of mörgum stofnunum samfélagsins. Staða forsetaembættisins sýnir okkur hins vegar að svona þurfa hlutirnir ekki að vera. Sérstaklega er staða Alþingis slæm og ekki útlit fyrir miklar breytingar á því í bráð. Vissulega eru verkefni þings og forseta um margt ólík og lengst af höfum við Íslendingar vanist því að forseti sé hafinn yfir pólitískt þras. Hollt væri þingmönnum hins vegar að minnast varnaðarorða forseta við setningu Alþingis síðasta haust. Þar vísaði hann í gamla visku þar sem varað er við því að gera fólk eða flokka á öndverðum meiði óðara að svörnum óvinum.

Viðbrögð Guðna við þessum mikla stuðningi meðal þjóðarinnar voru hógvær og auðmjúk eins og von var á. Guðna hefur á þessu þremur og hálfa ári sem hann hefur setið á Bessastöðum tekist að skapa sátt um embættið. Þetta mikla traust sem hann nýtur meðal þjóðarinnar er ekki sjálfgefið og er merkilegt í ljósi þess að hann var kjörinn forseti með tæpum 40 prósentum atkvæða. Spurningin nú er bara hvort einhver þori í slaginn.