Í dag eru 40 ár liðin frá því að fyrsti alþjóðlegi samningurinn á sviði persónuverndar var undirritaður. Er þar um að ræða Evrópuráðssamninginn um vernd einstaklinga vegna vélrænnar vinnslu persónuupplýsinga frá 28. janúar 1981, sem Ísland hefur verið aðili að frá upphafi. Alþjóðlegi persónuverndardagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan þennan dag að frumkvæði Evrópuráðsins til að minna á mikilvægi persónuverndar. Evrópska persónuverndarráðið sendir af þessu tilefni frá sér sameiginlegt myndband með skilaboðum frá forstjórum allra persónuverndarstofnana innan EES, Ísland þar með talið. Á Íslandi fögnum við jafnframt 20 ára starfsafmæli Persónuverndar, en stofnunin tók til starfa 1. janúar 2001 í samræmi við ákvæði þágildandi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Aukning er á málum sem stofnuninni berast á hverju ári, og ljóst er að margir telja á rétti sínum brotið.

Af hverju persónuvernd?

Margt hefur gerst frá árinu 2004, þegar Mark Zuckerberg stofnaði Facebook í Harvard, í þeim tilgangi að tengja skólafélagana betur saman. Nú hefur heimurinn verið tengdur. Daglegir notendur telja um 2 milljarða manna. Á Íslandi nota rúmlega 9 af hverjum 10 fullorðnum sama samfélagsmiðilinn – Facebook – og, við eigum nærri því heimsmet í notkun Netsins – um 99% landsmanna eru tengd því. Einsleitri samfélagsmiðlanotkun Íslendinga má í raun líkja við það að 90% landsmanna myndu keyra um á sömu tegund bifreiðar. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því, en sú staðreynd að rúmlega 9 af hverjum 10 fullorðnum hér nota sama samfélagsmiðilinn gerir það að verkum að hægt er með litlum skekkjumörkum að rýna og mögulega afvegaleiða heila þjóð.

Það hafa hins vegar enn þá ekki allir gert sér grein fyrir því að viðskiptamódel internetsins hefur alltaf verið að koma vöru og þjónustu á framfæri, sbr. auglýsingar um að þetta og hitt sé „ókeypis“ á Netinu. Í engu var í upphafi hugað að persónuvernd notenda. Þetta hefur leitt til þess að handfylli tæknifyrirtækja stýra milljörðum manna – af því að allt sem við gerum á Netinu, til dæmis á samfélagsmiðlum, er kortlagt. Þetta er fært í gagnabanka og á grundvelli flókinna algríma fáum við tilboð frá aðilum – sem að minnsta kosti sum hver okkar, vissum ekki að væru að fylgjast með okkur – og tilboðin sem okkur berast byggja á umfangsmikilli rýni, með aðstoð algríma, sem við vitum oftast ekki hvernig virka. Allt sem fólk gerir á samfélagsmiðlum getur verið rýnt og notað af þeim, sem sagt, texti sem og myndir og myndbönd. Þar með getur fólk misst stjórn á sínum upplýsingum, hvort sem um er að ræða spjall um greiningu barnsins þíns, eða það sem fólk telur vera „einkaspjall“ við maka eða aðra.

Mynstur í mannlegri hegðun – persónusnið

Stærstu samfélagsmiðlafyrirtækin eru talin búa yfir skráningu á 52.000 mismunandi skráðum mannlegum eiginleikum – til þess að skipta fólki í flokka eftir áhugamálum og venjum/eiginleikum. Nefnt hefur verið að 4. iðnbyltingin sé svipuð útvarps- eða sjónvarps-byltingunni – en ég get fullyrt að þá var ekki verið að rýna í til dæmis blæbrigði raddarinnar, þegar öppin biðja um aðgang að hljóðnemanum í símanum – og finna þannig út hvort um lærðan mann sé að ræða, eða ekki, hvort viðkomandi nýti sér gagnrýna hugsun eða hvort hann stundi virka hlustun. Annað dæmi hér er innsláttur á lyklaborð tölvu – út frá innslættinum á að vera hægt að finna vísbendingar um sjálfsöryggi, kvíða, depurð og þreytu hjá þeim sem slær inn. Síðan eru það fullyrðingar um að staðsetningarupplýsingar okkar séu skráðar hjá smáforritum og leitarvélum – jafnvel nokkrum sinnum á mínútu, samanber ítarlega skýrslu norsku neytendasamtakanna á vinnulagi Google árið 2018, en í kjölfarið hóf írska persónuverndin (DPC) sérstaka rannsókn á þessu árið 2020. Síðast en ekki síst er það andlitsgreiningartæknin, þar sem meðal annars er reynt að rýna í hugsanir okkar og hina ýmsu sjúkdóma. Auk þess sem andlitsgreining hefur verið notuð til að búa til falsfréttir.

Við Netið og samfélagsmiðlana bætist síðan sú tækni sem tengist Interneti allra hluta – en það eru sítengd snjalltæki sem ryðja sér til rúms í hverjum geira samfélagsins á fætur öðrum og kortleggja enn frekar okkar athafnir.

Stafræn áform – allra

Sama hvar okkur ber niður, þá eru nær allir þátttakendur í nútímasamfélagi að færa þjónustu sína í auknum mæli á stafrænt form. Persónuverndarlögum er ekki ætlað að standa í vegi fyrir tækniþróun heldur styðja við hana á þann hátt að okkar stjórnarskrárvörðu mannréttindi til friðhelgi einkalífs séu virt í hvívetna.

Margar lausnir geta leitt til vinnusparnaðar, aukinna þæginda og ánægju viðskiptavina, hvort sem um ræðir einkageirann eða hinn opinbera. Að sama skapi er ljóst að þegar persónuupplýsingar eru orðnar grundvöllur nær allrar þjónustu, þá skiptir miklu að öryggi þeirra sé tryggt í samræmi við þær upplýsingar sem undir eru hverju sinni. Tæknin verður að þjóna mannkyninu – ekki vinna gegn okkur.