Ég er móðir barns í þriðja bekk í Fossvogsskóla. Barnið mitt hefur alla sína skólagöngu veikst í skólahúsnæðinu vegna myglu og rakaskemmda þar. Eftir mikla baráttu foreldra og Skólaráðs Fossvogsskóla hefur í tvígang verið farið viðgerðir á Fossvogsskóla sem hafa þó ekki tekist betur til en svo að fjöldi barna er enn að veikjast í skólanum.

Fyrir ári síðan hófum við hjónin að skrifa bréf til Skóla og frístundaráðs og Umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkur til að benda þeim á að barnið okkar væri enn að veikjast í Fossvogsskóla. Það er vægt til orða tekið að segja að okkur hafi mætt tómlæti. Í heilt ár höfum sjaldnast fengið svar við umleitunum okkar.

Hver er staða sonar míns?

Sonur minn er í lögbundnu námi og samkvæmt yfirlýsingu frá borginni leggur Reykjavíkurborg áherslu á að allt skóla- og frístundastarf í borginni fari fram í heilnæmu húsnæði og að andleg og líkamleg vellíðan barna, ungmenna og starfsfólks sé ávallt í fyrirrúmi. Mín reynsla er því miður sú að þetta séu orðin tóm.

Drengurinn minn fær margskonar einkenni í skólanum sem mygla og rakaskemmt efni eru þekkt fyrir að valda. Hann hefur fengið öndunarfærasýkingar, höfuðverk, heilaþoku og sýnir einbeitingarskort. Hann á erfitt með að sitja kyrr og læra, fær exem á andlit og líkama. Hann fær meltingarfæraeinkenni, er oft pirraður og líður illa. Á hverjum degi þarf að hann að mæta í húsnæði sem gerir hann veikan. Það skal tekið fram að hann hefur farið inn í fjölda annara húsa um ævina og hvergi sýnir hann einkenni neitt í líkingu það sem hann sýnir eftir dvöl í skólanum. Einkenni hans minnka um helgar og hverfa í lengri fríum frá skólanum.

Ekki sér fyrir endann á þessu máli þar sem úrræði borgarinnar virðast engin vera. Enn mætir okkur algjört tómlæti og hunsun. Skortur á vilja til að bæta ástandið virðist algjör hjá starfsmönnum borgarinnar. Umhyggja fyrir heilsu sonar míns og framtíð virðist af mjög skornum skammti.

Hver eru úrræðin?

Í yfirlýsingu sem send var á foreldra barna í Fossvogsskóla og dagsett var þann 01.10 2020 kom fram að athugun Náttúrufræðistofnunar á fjórum snertisýnum úr skólanum, sem tekin voru síðastliðið haust, sýndi að eftir ræktun var þar meðal annars enn að finna tvær tegundir myglusveppa sem teljast varasamar innanhúss. Í ljósi álits Náttúrufræðistofnunar var ákveðið að fyrstu viðbrögð yrðu þau að skólahúsnæðið yrði þrifið vandlega og aftur tekin sýni að mánuði liðnum sem send yrðu til tegundagreiningar hjá Náttúrufræðistofnun. Vakni grunur um raka eða leka í skólanum eða að enn séu skemmdir í byggingarefni verði brugðist við því með viðeigandi hætti.
Á meðan á þessum aðgerðum stæði var lofað að gerðar yrðu ráðstafanir til að bæta líðan þeirra barna, sem sérstakar áhyggjur eru af, í samstarfi við foreldra þeirra. Við bíðum enn eftir þessum úrræðum nú tæpum tveimur mánuðum síðar. Á meðan er sonur minn veikur í skólanum og heilsa hans versnar dag frá degi. Hver er réttur hans? Hvar er samráðið við foreldra veiku barnanna í Fossvogsskóla? Hvernig eigum við að treysta því, eftir allt sem á undan er gengið, að þær framkvæmdir sem ráðist er í nú séu fullnægjandi og umfram allt annað gerðar með hagsmuni og heilsu barna í Fossvogsskóla í fyrirrúmi?

Ég skora á starfsmenn Skóla og frístundaráðs og Umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkur ásamt kjörnum fulltrúum allra stjórnmálaflokka í Reykjavík að láta sig málið varða. Að staðið sé við gefin loforð um úrræði fyrir börnin sem veikjast í húsnæðinu. Að sýnt sé í verki og án tafa að raunverulega sé vilji til að rannsaka og laga Fossvogsskóla að fullu og á þann hátt að við foreldrar getum raunverulega treyst þeim aðgerðum. Þá fyrst geta börnin í Fossvogsskóla farið að byggja upp heilsu sína á nýjan leik. Þau mega engan tíma missa.