„Morgundagurinn verður erfiður,“ tísti sjúkraþjálfari í vikunni. „Fjöldi kvenna sem skilur ekkert í því af hverju verkirnir eru að blossa upp núna. En ég skil, kæru konur.“

Umdeilt mál hefur vakið upp erfiðar tilfinningar hjá fjölda kvenna. Enn önnur MeToo-bylgja er að kvikna þar sem konur stíga einu sinni enn fram og segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hendi karla. Alls konar karla. Frægra karla og óþekktra. Valdamikilla og valdalítilla. Stórra og smárra. Frekjukarla og indælla.

Ofbeldið er kynferðislegt, tilfinningalegt og líkamlegt. Það er alls konar og konur hafa þróað með sér leiðir til að takast á við ofbeldið. Takast á við áfallastreituna sem því fylgir. Áreitinu frá vinum og fjölskyldu, sem og ókunnugu fólki sem spyr hvort þær hafi nú ekki bara misskilið eitthvað. Hvort þetta hafi ekki verið óvart. Hvort ekki sé hægt að ná sáttum. Hvort þetta sé nú örugglega satt.

Hið persónulega er pólitískt sögðu annarrar bylgju femínistar á 7. áratugnum þegar þær reyndu að koma ofbeldi gegn konum á dagskrá sem kerfisbundnum vanda samfélagsins. Í dag erum við enn að tala um einstöku vondu karlana. Þetta hljóti að vera bara einstaka jaðarsettir menn sem kunna sig ekki. Þetta geta ekki verið indæli frændinn, vinurinn, bróðirinn, venjulegi maðurinn sem við öll þekkjum.

Konur eru orðnar þreyttar. Þreyttar á því að lifa ekki við sama öryggi. Þreyttar á því að verða fyrir ofbeldi. Þreyttar á því að skrifa svona pistla. Og ekki síst þreyttar á því að þurfa að minna einu sinni enn á ofbeldið sem þær hafa orðið fyrir, í von um að samfélagið sjái að nú, loksins, sé komið nóg.