Grein okkar í Fréttablaðinu 9. febrúar um hugsanlega bóluefnarannsókn Pfizers vakti nokkra athygli. Tilgangur greinarinnar var að vekja almenning og yfirvöld til umræðu um siðferðileg álitamál sem við töldum ekki seinna vænna að rædd yrðu á opinberum vettvangi. Óhætt er að segja að það hafi tekist, að minnsta kosti hvað almenning varðar, því að viðbrögðin við grein okkar voru mikil og almennt jákvæð. Greinilegt var að mörgum hafði þótt þögnin um þessar siðferðisspurningar þrúgandi, sér í lagi hvað varðar þá grundvallarspurningu hvort nægilega sterk rök væru fyrir því að íslenska þjóðin yrði í heild sinni bólusett langt á undan nærri öllum öðrum þjóðum, þar á meðal þjóðum þar sem faraldurinn hrjáir fleiri og heilbrigðiskerfin eru veikari.

Úr því að ekkert virðist ætla að verða úr rannsókninni viljum hins vegar nota þetta tækifæri til að ræða almennt um siðferðilega umræðu af því tagi sem við hvöttum til í fyrri greininni. Við höfum orðið vör við það viðhorf að siðferðisspurningar af þessu tagi eigi ekki heima í opinberri umræðu, til dæmis vegna þess að þær séu á verksviði tiltekinna stofnana svo sem Vísindasiðanefndar. Því hefur einnig verið haldið fram að spurningar af því tagi sem við vörpuðum fram hafi verið ótímabærar vegna þess að ekki hafi allar staðreyndir málsins legið fyrir. Þar sem þessi viðhorf hafa meðal annars komið fram hjá sóttvarnayfirvöldum og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar viljum við nota þetta tækifæri til að útskýra hvað er athugavert við þessar hugmyndir um tilgang og tímasetningu siðferðilegrar umræðu.

Allar ígrundaðar ákvarðanir okkar byggja bæði á skoðunum okkar um staðreyndir og á gildum okkar eða markmiðum. Sá sem ákveður til dæmis að láta bólusetja sig gerir það vegna þess annars vegar að hann telur að bólusetningin komi í veg fyrir að hann fái tiltekinn sjúkdóm (staðreynd) og hins vegar vegna þess að hann vill vernda sjálfan sig eða aðra fyrir sjúkdómnum (gildi). Þegar um mjög afdrifaríkar ákvarðanir er að ræða, eins og hvort heil þjóð sé bólusett á undan öðrum, er mikilvægara en ella að sem flestar staðreyndir málsins liggi fyrir. Það er augljóst.

Aftur á móti er það kannski ekki eins augljóst að hið sama á við um gildi: Eftir því sem ákvarðanir eru afdrifaríkari skiptir þeim mun meira máli að við gefum gildum okkar góðan gaum. Er það til dæmis forsvaranlegt að ein þjóð stígi út úr samkomulagi við aðrar þjóðir um að tryggja sanngjarna dreifingu bóluefna, jafnvel þótt væntingar standi til að það skili vísindalegum niðurstöðum? Ef svo er, skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi þjóð standi nú þegar vel hvað faraldurinn og heilbrigðiskerfi varðar? Þessar spurningar eru siðferðilegs eðlis. Þeim verður ekki svarað með því einu að höfða til fleiri staðreynda, til dæmis um það hvernig samningurinn við Pfizer hefði verið úr garði gerður.

Sumum kann að finnast þetta óþægilegt. Hvernig útkljáum við siðferðileg álitamál ef ekki er hægt að láta staðreyndir úrskurða um málið? Í okkar huga er svarið skýrt. Við svörum siðferðilegum spurningum af þessu tagi saman, sem samfélag, með því að eiga opinskáa, málefnalega umræðu um þau siðferðilegu gildi sem við viljum halda í heiðri og rökin fyrir þeim. Í slíkri umræðu eru sjaldnast allir sammála, sérstaklega ekki til að byrja með. Flest siðferðileg framfaraskref taka tíma – ekki vikur eða mánuði heldur ár, áratugi, jafnvel aldir. En án umræðunnar gerist ekkert. Þvert á móti: Ranglætið lifir góðu lífi og sérhagsmunir þrífast best í skjóli þagnarinnar.

Af þessu sést hvað er athugavert við fyrra viðhorfið sem við nefndum hér að ofan – að siðferðisspurningar séu á verksviði stofnana eins og Vísindasiðanefndar og eigi því ekki heima í opinberri umræðu. Þvert á móti er eðli siðferðilegra álitamála slíkt að þau á helst að ræða í þaula opinberlega áður en og samhliða því að þau koma inn á borð slíkra stofnana. Að halda öðru fram felur í sér sérkennilega trú á kennivald þessara stofnana sem handhafa sannleikans um siðferðileg málefni. Þessi trú er ekki aðeins einfeldningsleg heldur einnig ólýðræðisleg, að því leyti að hún útilokar almenning frá því að hafa áhrif á þau siðferðilegu gildi sem samfélagið heldur í heiðri.

Þetta varpar líka ljósi á seinna viðhorfið sem við höfnum – að siðferðisspurningarnar hefði ekki átt að ræða fyrr en búið væri að leggja fram samningsdrög. Af ofansögðu er ljóst að siðferðileg umræða þarf góðan tíma. Slíkar spurningar hefði tæpast verið hægt að útkljá á þeim tíma sem liði milli þess að samningsdrög lægju fyrir og þess að skrifa ætti undir samninginn, enda höfðu forsvarsmenn samningsumleitananna við Pfizer lagt áherslu á að vinna þyrfti málið hratt. Í því samhengi má rifja upp að ekki er liðið ár frá því að forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sakaði Persónuvernd um glæpsamlegt athæfi þegar stofnunin afgreiddi umsókn fyrirtækisins ekki samdægurs. Augljóst er að afdrifarík siðferðileg álitamál er ekki hægt að ræða nægilega vel innan slíks tímaramma.

Reyndar mætti einnig gagnrýna þetta viðhorf á ýmsum öðrum forsendum. Til dæmis má nefna að einn tilgangur opinberrar siðferðilegrar umræðu um rannsóknina hefði verið að hafa áhrif á það hvernig samningnum við Pfizer yrði háttað. Á hvaða atriði hefði íslenska samninganefndin átt að leggja áherslu? Hefði Ísland átt að leita til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) til að leggja blessun sína yfir rannsóknina, til dæmis í ljósi afleiðinga fyrir bóluefnadreifingu til annarra þjóða? Spurningar af þessu tagi hefði augljóslega þurft að ræða áður en samningarnir lægju fyrir.

Opinská og málefnaleg umræða um siðferðileg gildi er nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Hún má ekki einskorðast við tilteknar stofnanir eða sérfræðinga. Og hún þarf rúman tíma, sérstaklega þegar mikið er í húfi.

Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands

Hlynur Orri Stefánsson, dósent í hagnýtri heimspeki við Stokkhólmsháskóla

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki og stjórnarformaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands