Þið vitið um hvað þessi pistill fjallar, er það ekki? Spurninguna sem sífellt f leiri Íslendingar velta fyrir sér. Hvar er nýja stjórnarskráin? Spurningin er út um allt, meðal annars á vegg við hliðina á ráðuneyti. Sem þurfti reyndar að mála tvisvar.

Í október árið 2012 sögðu 67 prósent kjósenda sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu já við því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Rúm 66 prósent vildu jafnt vægi atkvæða yfir landið allt og 83 prósent að náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, yrðu lýstar þjóðareign. Ef svo væri mætti til dæmis einungis ráðstafa þeim gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóf legs tíma í senn, eins og stjórnlagaráð lagði reyndar til.

Stjórnarskrá er samkomulag um leikreglurnar sem þjóðin semur fyrir þau sem fara með valdið. Valdið kemur frá þjóðinni og það er valdhafanna að fara eftir leikreglunum. Að skilgreina eigin reglur er ekki verkefni stjórnmálaf lokka. Þeirra verkefni er ekki að ákveða hver vilji þjóðarinnar á að vera, heldur framkvæma vilja þjóðarinnar.

Átta árum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þarf þjóðin að standa í valdabaráttu við eigin stjórnvöld. Það er vandræðalegt. Ný könnun sýnir að 17 prósent eru á móti því að nýja stjórnarskráin taki gildi. Sýnir það vilja þjóðarinnar?

Hvers vegna hefur Alþingi enn ekki staðfest nýju stjórnarskrána? Þjóðin er tilbúin fyrir hana og telja má líklegt að sífellt f leiri kjósendur spyrji sjálfa sig, og kjörna fulltrúa sína, eftirfarandi spurninga á komandi kosningavetri: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hvað tefur? Hvað ætlið þið að gera í málinu? Ég bíð spennt eftir svari.