Fram­sókn og Sjallar eru nú að henda út há­lendis­þjóð­garðinum, sem var sagt eitt af helstu erindum VG í ríkis­stjórn fyrir fjórum árum tæpum. Þetta kemur reyndar ekki á ó­vart. Því miður hafa for­sætis- og um­hverfis­ráð­herra haldið klaufa­lega á málinu sem náttúru­verndar­sam­tök hófu til vegs á sínum tíma og naut lengi meiri­hluta­stuðnings þjóðarinnar.

Merki­legt samt hvernig Sigurður Ingi Jóhanns­son orðar af­stöðu flokks síns til málsins þegar mynduð var ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur. Í Vísi á mánu­daginn segir hann „Fram­­sóknar­­flokkinn hafa sett fyrir­­vara við málið inn í stjórnar­sátt­­málann ...“. Og nú sé orðið „úti­lokað“ að klára þjóð­garðinn fyrir kosningar. Fyrir­varar eru al­gengir í stjórn­mála­störfum hér­lendis, að minnsta kosti á þingi. Þing­menn í stjórnar­þing­flokki gera fyrir­vara við frum­vörp, sem eru þá kynntir ráð­herranum, og í þing­nefndum er hægt að sam­þykkja mál með fyrir­vara, sem þá er ætlast til að sé kynntur við um­ræðu máls og af­greiðslu.

Hef samt aldrei heyrt um fyrir­vara við stjórnar­sátt­mála. Og í þeim frá nóvember 2017 er enginn fyrir­vari finnan­legur. Um þjóð­garðinn stendur þetta, svart á hvítu:

„Stofnaður verður þjóð­garður á mið­há­lendinu í sam­ráði ...“ við hina og þessa.

Stjórnar­sátt­málum er ætlað að sýna hvers má vænta af stjórninni – og það er á grund­velli þeirra sem fólkið í flokkunum sam­þykkir nýja ríkis­stjórn – í flokks­ráði hjá Sjálf­stæðis­flokki og VG, mið­stjórn í Fram­sóknar­flokknum.

Um­ræddur fyrir­vari Fram­sóknar var ekki kynntur al­menningi haustið 2017. Fé­lagar og stuðnings­menn stjórnar­flokkanna virðast ekkert hafa vitað af honum. Kannski hafa ýmsir for­ystu­menn í flokkunum – og jafn­vel þing­menn þeirra – ekki heldur vitað neitt?

Maður spyr svo í fram­haldinu, af því þjóð­garðurinn var eitt af því sem VG taldi sér til tekna í þessari stjórn: Sagði for­maður VG sínu fólki ekkert frá fyrir­vara Fram­sóknar í nóvember 2017? Var stuðningur við stjórnina í þing­flokki og flokks­ráði VG þá að þessu leyti ekki á sann­ferðugum for­sendum? Eða var enginn fyrir­vari?